Glaðbeittir verðlauna- og viðurkenningarhafar á Patreksfirði. Ljósm. Eyrarrósin.

Handbendi hlýtur Eyrarrósina og IceDocs hvatningarverðlaun

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, var afhent í sautjánda sinn á sunnudaginn við hátíðlega athöfn á Patreksfirði. Frú Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin. Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga hlýtur viðurkenninguna að þessu sinni. Greta Clough, stofnandi og listrænn stjórnandi Handbendis, tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að upphæð 2,5 milljónir króna. Eyrarrósarhafa verður boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2022 og að auki verður framleitt stutt og vandað heimildamyndband um verkefnið.

Alls bárust 36 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 hvaðanæva af landinu. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru ný af nálinni og eru veitt þremur verkefnum sem hafa verið starfrækt í þrjú ár eða skemur. Verðlaunin eru veitt metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og hafa alla burði til að festa sig í sessi.

Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 hlutu IceDocs – Iceland Documentary Film Festival á Akranesi, Boreal Screendance Festival á Akureyri og Röstin gestavinnustofa á Þórshöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að upphæð kr. 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að upphæð kr. 100.000.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar, Byggðastofnunar og Icelandair sem undirrituðu við sama tækifæri endurnýjaðan samstarfssamning út árið 2024.

Líkar þetta

Fleiri fréttir