Hjónin Helgi Ómar Þorsteinsson og Olgu Magnúsdóttir ásamt syni þeirra Fannari Frey Helgasyni. Mynd tekin á 70 ára afmæli fyrirtækisins. Ljósm. Skessuhorn/ kgk.

Verktakafyrirtækið Þróttur er 75 ára um þessar mundir

Verktakafyrirtækið Þróttur ehf. á Akranesi varð 75 ára 2. maí síðastliðinn. Fyrirtækið er rótgróið og hefur unnið við fjöldann allan af verkum út um allt land. Það hefur verið starfrækt síðan árið 1946 og hefur því fyrir löngu fest sig í sessi. Í samtali við Skessuhorn segir Helgi Ómar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Þróttar að verkefnastaða fyrirtækisins sé mjög góð um þessar mundir og afkoman sömuleiðis góð undanfarin ár. Helstu verkefni sem fyrirtækið vinnur að um þessar mundir eru átta kílómetra kafli Álftanesvegar sem klárast í sumar, nokkur smærri verk fyrir Akraneskaupstað á Höfðaseli og Breið, verk fyrir Veitur við Þjóðbraut á Akranesi og þá átti Þróttur lægsta tilboð í Örlygshafnarveg. Starfsmenn eru um tuttugu talsins.

En grípum aðeins niður í sögu fyrirtækisins. Stjórn og eignahlutur Þróttar hefur frá upphafi haldist innan sömu fjölskyldunnar. Stofnandinn Þorsteinn Stefánsson (1914-1997) var fæddur og uppalinn á bænum Skipanesi í Leirársveit. Lífsbaráttan í sveitinni var oft hörð en um tíu ára aldurinn missti Þorsteinn föður sinn, Stefán Jónsson frá Bjarteyjarsandi, og þurfti því að stýra búrekstrinum ásamt móður sinni, Guðríði Jóhannsdóttur, og bróðurnum Jóhanni. Þegar Þorsteinn var kominn fast að tvítugu fluttist hann yfir á Akranes og stundaði þar sjómennsku. Þeim kafla lauk árið 1946 þegar hann festi kaup á glænýrri International jarðýtu og í tengslum við þann ráðahag var fyrirtækinu Þrótti opinberlega hleypt af stokkunum 2. maí þetta sama ár.

Kona Þorsteins var Valdís Sigurðardóttir (1925-1982) en þau giftu sig árið 1948. Árið 1953 stofnuðu hjónin myndarlegt bú á jörðinni Ósi í Skilamannahreppi en eftir það var Þorsteinn gjarnan kallaður „Steini á Ósi“. Þar reis nýtt íbúðarhús árið 1954 og fjós árið 1957 auk þess sem Þorsteinn hóf að rækta sínar einstöku Ós-kartöflur sem löngum þóttu eftirsóttar af kaupendum á svæðinu. Hjónin Þorsteinn og Valdís eignuðust sex börn en þau eru; Stefán Jónas (1948), Sigurður (1951), Engilbert (1953), Helgi Ómar (1955), Ólafur (1961) og Sigríður (1967). Í gegnum tíðina hefur öll fjölskyldan komið á einn eða annan hátt nálægt starfseminni. Frá árinu 1984 hefur sonurinn Helgi Ómar verið framkvæmdastjóri Þróttar og fer hann með allan eignahlut ásamt konu sinni Olgu Magnúsdóttur og sonum þeirra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir