Gamla veiðihúsið við Reykjadalsá er komið til ára sinna. Ljósm. gó.

Undirbúa byggingu nýs veiðihúss fyrir Reykjadalsá

Fiskræktar- og veiðifélag Reykjadalsár hefur óskað eftir tilboðum í byggingu á nýju veiðihúsi í Reykholti í Borgarfirði, niður við ána. Veiðifélag á nú gamalt veiðihús í landi Kjalvararstaða í Reykholtsdal. „Gamla húsið er gamall A bústaður sem er kominn til ára sinna,“ segir Hörður Guðmundsson, formaður veiðifélagsins í samtali við Skessuhorn. Nýja húsið á að vera um 130 fm að stærð með þremur svefnherbergjum og svefnplássi fyrir sex.

„Við ætlum að byggja töluvert stærra hús en það gamla og með svefnplássi fyrir fleiri,“ segir Hörður og bætir við að í gamla húsinu sé í raun bara svefnpláss fyrir fjóra. Aðspurður segir hann endanlega teikningu á nýju húsi ekki liggja fyrir. „Við erum með gróflega áætlaða teikningu en ekki lokateikningu. Sá sem tekur að sér verkið fær nokkuð frjálsar hendur með hönnun á húsinu, einu kröfur okkar eru að hafa þrjú svefnherbergi með sér baðherbergi inn af hverju herbergi,“ segir Hörður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir