Unnið við breytingar í Átthagastofunni. Ljósm. Snæfellsbær.

Tökur á kvikmynd hefjast í Ólafsvík um mánaðamótin

Á næstunni hefjast upptökur á kvikmyndinni Woman At Sea í Ólafsvík og nágrenni og munu tökur standa yfir í júní og júlí. Kvikmyndin byggir á margverðlaunaðri franskri bók sem fjallar um franska ævintýrakonu sem ákveður að hefja nýtt líf sem sjómaður í karllægum heimi á norðurhjara veraldar. Þar þarf hún að takast á við líkamlegt erfiði og náttúröflin á sama tíma og hún horfist í augu við sjálfa sig og sigrast á eigin ótta.

Um fjörutíu manns munu verða í tökuliði myndarinnar og byrjar fólk að mæta á svæðið upp úr miðjum þessum mánuði. Tökurnar sjálfar hefjast 1. júní og verða um 20 leikarar á svæðinu auk aukaleikara. Stór hluti myndarinnar gerist á sjó eða í höfninni í Ólafsvík og skartar þekktum frönskum, belgískum og íslenskum leikurum. Framleiðendur eru franskir og eru ekki ókunnugir landinu því þeir framleiddu m.a. kvikmyndina Kona fer í stríð.

Á heimasíðu Snæfellsbæjar er greint frá því að fenginn hafi verið heimabátur til að skarta stóru hlutverki í myndinni. Þá standa breytingar yfir í hluta af Átthagastofu Snæfellsbæjar sem fyrirhugað er að nota í myndinni. Þá hefur fjöldi gistirýma í sveitarfélaginu verið leigð til lengri tíma, veitingar pantaðar á Sker Restaurant, óskað eftir aukaleikurum úr samfélaginu og þar fram eftir götunum. Það er því ljóst að þetta verkefni mun hafa ýmis jákvæð áhrif fyrir samfélagið í Snæfellsbæ á næstu vikum og misserum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir