Að undirritun samninga var stillt upp í hópmynd af fulltrúum þeirra sem tengjast Fab Lab smiðju Vesturlands. Ljósm. Guðni Hannesson.

Fab Lab smiðja Vesturlands á Akranesi tekin til starfa

„Í dag uppskerum við og fögnum árangri, Fab Lab smiðja Vesturlands á Akranesi tekur til starfa, staður þar sem sköpunin yfirtekur allt,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi m.a. í ræðu sem hann flutti í tilefni þess að í dag var skrifað undir samstarfssamning um rekstur Fab Lab smiðju Vesturlands á Breiðinni á Akranesi. Smiðjan verður nokkurs konar móðurstöð fyrir aðrar Fab Lab smiðjur á Vesturlandi og víðtækur samstarfsvettvangur skóla og fyrirtækja. Að henni standa 23 aðilar af Akranesi og víðar af Vesturlandi auk aðkomu tveggja ráðuneyta; nýsköpunarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins.

Samstarfsaðilar nýrrar Fab Lab smiðju og þeir sem skrifuðu undir samninginn eru: Akraneskaupstaður, ArtTré, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Breið þróunarfélag, Brim, Elkem Ísland, Félag eldri borgara á Akranesi, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjöliðjan, grunnskólarnir á Akranesi, Icewind, Landssamtök karla í skúrum, leikskólar á Akranesi, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Muninn Film, Norðurál, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Skaginn 3X, Starfsendurhæfing Vesturlands og Símenntunarmiðstöð Vesturlands.

Muninn tekur verkefnisstjórnina

Þórdís Kolbrún og Sævar Freyr svipta hér hulunni af nýju merki á veggjum smiðjunnar. Ljósm. mm.

Akraneskaupstaður, sem er ábyrgðaraðili verkefnisins og leggur því til framlag, hefur ráðið fyrirtækið Muninn ehf. til þess að annast verkefnastjórnun smiðjunnar. Þá verður sérstök stjórn yfir smiðjunni sem skipuð er fimm aðilum; frá Akraneskaupstað, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Fjölbrautaskóla Vesturlands, ArtTré ehf. og Breið þróunarfélagi. „Hér viljum við skapa aðstöðu fyrir alla aldurshópa til að koma saman, vinna saman og skapa saman. Samstarfssamningurinn táknar það og dregur saman ólíka aðila að stofnun, rekstri og samvinnu við þróun Fab Lab smiðju Vesturlands. Stafræn smiðja sem þessi býður uppá óteljandi tækifæri og finnum við mikinn vilja og samhug í að gera gott enn betra,“ sagði Sævar Freyr.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun styðja verkefnið næstu þrjú árin með fjögurra milljóna króna framlagi árlega. Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir ráðherra sagðist í ávarpi sem hún flutti fagna þeim áfanga að nýsköpunarsetur taki til starfa á Akranesi. Í því felist óendanlega mörg tækifæri til vaxtar og eflingar atvinnulífi.

Tenging við FVA

Fram kom að tenging verður við verkefnið Karlar í skúrum sem felur í sér aðstöðu fyrir alla karlmenn til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir ákveða sjálfir. Þar geta þeir skipst á skoðunum og miðlað þekkingu til yngri kynslóða og skilað þannig áfram góðu framlagi til samfélagsins. Fjölbrautarskóli Vesturlands á Akranesi mun tengja smiðjuna við námsbrautir skólans, þá sérstaklega nýja braut hans; lista- og nýsköpunarbraut. Þá hafa skólar, bæði leik- og grunnskólar á Akranesi staðfest þátttöku sína í verkefninu og er það hluti af því auka þekkingu og áhuga á verk- og tækninámi.

Sérstaða Fab Lab smiðju Vesturlands

Fab Lab smiðja Vesturlands er frábrugðin öðrum smiðjum á þann veg að hægt er að þróa, skapa og framleiða afurðir, allt á sama staðnum. Þessi möguleiki er fyrir hendi þar sem starfandi samhliða smiðjunni er fjölskyldufyrirtækið ArtTré sem er í margþættri starfsemi á sviði merkinga og framleiðslu á smávörum, hönnunar- og heimilismunum sem unnið er úr ýmis konar hráefni svo sem timbri, plexí, plasti, gleri og áli. Fyrirtækið hefur yfir að ráða hágæða 100w laser og CNC tölvufræsara ásamt stórprentunar Mutho pringer og Jaguar plotter, tæki sem nýtast starfsemi Fab Lab smiðju einstaklega vel. Fyrirtækið Icewind mun einnig vera starfsemi sína í sama húsi og Fab Lab smiðjan og leggja til búnað fyrir smiðjuna ásamt því að taka þátt í þróun verkefna.

Samstarf við fyrirtæki og SSV

Þrjú fyrirtæki á Akranesi og nágrenni taka þátt í uppbyggingu og þróun smiðjunnar með sérstöku framlagi, þ.e. Elkem, Norðurál og Skaginn 3X. Þá leggur Brim til aðstöðu. Fyrirtækin leggja samanlagt til verkefnisins 12 milljónir króna á næstu þremur árum. Þá leggja Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi verkefninu lið með framlagi.

Fab Lab verður smiðja með tækjabúnaði til fjölbreyttrar framleiðslu, sem gefur ungum sem eldri einstaklingum og fyrirtækjum kost á að þjálfa sköpunargáfu og hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að móta, hanna og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Hlutverk smiðjunnar verður meðan annars að:

  • Stuðla að nýsköpun með því að veita einstaklingum, skólum og fyrirtækjum á Vesturlandi aðgang að stafrænum framleiðslutækjum.
  • Stuðla að nýsköpun í kennslu og kennsluháttum nemenda á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem og í fullorðinsfræðslu.
  • Stuðla að auknu tæknilæsi nemenda, einstaklinga með iðn- og tæknimenntun sem og almennings.
  • Stuðla að hverskonar framþróun í framleiðslu og smíði á varningi sem tengist heimilum, fyrirtækjum og öðrum þeim sem hag geta haft af stafrænni framleiðslu og þekkingu.
  • Að skapa aðstöðu fyrir „Karla í skúrum“ og Félag eldri borgara þar sem eldra fólk getur sinnt áhugamálum og smærri verkefnum.

Framundan er að ljúka undirbúning smiðjunnar og opna hana fyrir hópa og almennings. Fab Lab smiðjan heldur úti upplýsingasíðu á Facebook. Stefnt að því að auglýsa opna tíma í smiðjunni um mánaðamótin maí/júní og í ágúst næstkomandi mun taka í gildi stundatafla fyrir smiðjuna þar sem hópar fá úthlutuðum tímum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir