Auglýst eftir presti í Garða- og Saurbæjarprestakalli

Biskup Íslands auglýsir á vef sínum eftir presti til þjónustu í Garða- og Saurbæjarprestakalli og rennur umsóknarfrestur út á miðnætti 25. maí 2021. Prestar Garða- og Saurbæjarprestakalls eru sem stendur tveir, Þráinn Haraldsson sóknarprestur, og Þóra Björg Sigurðardóttir en Jónína Ólafsdóttir lét nýlega af störfum eftir að hún var ráðin sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju.

Garða- og Saurbæjarprestakall samanstendur af fjórum sóknum; Akranessókn með um 7.800 íbúum, Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd með rúmlega 140 íbúum, Leirársókn með rúmlega 300 íbúum og Innra-Hólmssókn með rúmlega 150 íbúum. Fjórar kirkjur eru í prestakallinu, Akraneskirkja, Hallgrímskirkja í Saurbæ, Leirárkirkja og Innra- Hólmskirkja.

Athygli vekur að einungis sex sóknarprestar hafa þjónað Akurnesingum frá árinu 1886. Þeir eru: Sr. Jón A. Sveinsson, 1886 til 1921, Þorsteinn Briem, 1921 til 1946, Jón M. Guðjónsson, 1946 til 1975, Björn Jónsson, 1975 til 1997 Eðvarð Ingólfsson, frá 1997 til 2019 og Þráinn Haraldsson frá 2019. Að meðaltali hafa fyrrverandi sóknarprestar þjónað í tæp 27 ár sem verður að teljast býsna gott. Lengst starfaði Sr. Jón A. Sveinsson eða í 35 ár.

Allar gildar umsóknir um starfið fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. Kjörnefnd Garða- og Saurbæjarprestakalls kýs síðan prest úr hópi umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar.

Fyrirvari er settur í auglýsingunni um að biskupafundur hafi unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall. Þjónustan er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Í auglýsingunni er vakin athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir