Óskar Sigvaldason í götunni Sóleyjarkletti í Borgarnesi sem Borgarverk tekur þátt í uppbyggingu á ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum í Borgarnesi. Ljósm. úr safni/ mm

Afar góð verkefnastaða hjá Borgarverki

Útlit er fyrir gott sumar hjá Borgarverki ehf. að sögn Óskars Sigvaldasonar framkvæmdastjóra. Hann segir verkefnastöðuna gífurlega góða. Borgarverk er nú að vinna að tveimur stórum gatnagerðarverkefnum á Selfossi auk þess sem fyrirtækið er nú langt komið með framkvæmdir við nýjan sjóvarnargarð og vegaframkvæmdir við Faxabraut á Akranesi. „Svo erum við með mörg önnur verk líka, eins og að endurnýja hitaveitu í gegnum Grjóteyrarland og að taka í gegn Hvítársíðuveg ofan við Húsafell. Þá erum við að vinna á Skógarstrandarvegi, að laga svokallaða Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði og í vegagerð í Gufufirði. Þetta er svona í stórum dráttum þau verkefni sem við erum að sinna núna,“ segir Óskar. Hann bætir við að nú sé verið að fara að undirrita samning við Vegagerðina um yfirlagnir á þjóðvegum um allt land. „Þetta er með því mesta sem við höfum verið með í yfirlögnum, sem er ekkert nema jákvætt. Það eru því bara bjartir tímar framundan,“ segir Óskar.

Fyrir áhugasama má benda á atvinnuauglýsingu frá Borgarverki í Skessuhorni vikunnar þar sem auglýst er eftir bifreiðastjórum og tækjastjórum til starfa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir