Haraldur Jónsson, skipstjóri, búinn að taka upp grásleppunetin. Ljósm. frg.

Ósáttur við Landhelgisgæsluna sem hleypur eftir hoppandi landeiganda

Lögreglan á Vesturlandi tók á móti Haraldi Jónssyni skipstjóra á Inga Rúnari AK-35 þegar hann kom úr síðasta gráslepputúrnum í gær. Ástæðan var sögð sú að Haraldur hefði verið að veiðum í friðlandi við Kjalarnes og Landhelgisgæslan hefði eitthvað við það að athuga. Blaðamaður Skessuhorns náði tali af Haraldi þar sem hann var að ganga frá grásleppunetum en hann tók netin upp í gær. Hann segist vera orðinn ansi þreyttur á atganginum í Gæslunni. Meðal annars hringi hún í hann seint á kvöldin. Hann segir ástæðuna fyrir þessari afskiptasemi Gæslunnar bónda, sem oft standi hoppandi í fjörunni þegar þeir vitja netanna við Kjalarnes, en Haraldur segist þó ekki kippa sér neitt upp við það. Bóndinn er með æðarrækt í landi sínu og segir Haraldur einkennilegt hve oft Landhelgisgæslan byrjar að hamast í honum strax í kjölfarið á þessu hoppi bóndans.

Haraldur á Inga Rúnar AK í félagi við bróður sinn, Guðmund Pál Jónsson og son hans, Sigurjón Guðmundsson. Að mati þeirra bræðra á það sér enga stoð í lögum að óheimilt sé að veiða á þessum slóðum og að auki löng hefð fyrir því að grásleppunet séu lögð þarna. Engin opinber gögn sé neinsstaðar að finna um slíkt bann. Haddi segist vilja fá þetta mál endanlega á hreint. Hann segist hreinlega hafa óskað eftir því að vera kærður en ekki hafi enn orðið af því. Haraldur hefur lagt sín grásleppunet á þessum slóðum í áraraðir. Aldrei hafi orðið nein eftirmál eða kærur enda sé enginn fótur fyrir slíku, að hans sögn.

Að sögn Haraldar gekk grásleppuvertíðin vel, tíðin góð og mokafli. Verð fyrir grásleppuna er hins vegar sögulega lágt en mikill afli bjargaði því sem bjargað varð. Alls veiddu þeir á Inga Rúnari um 50 tonn á þessari vertíð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir