Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Kjartan Ragnarsson eigendur Landnámssetursins. Ljósm. arg.

Landnámssetrið opnað að nýju eftir átta mánaða lokun

Á morgun, uppstigningardag 13. maí, verður Landnámssetrið í Borgarnesi opnað að nýju eftir að hafa verið lokað frá því síðasta haust. Landnámssetrið var opnað fyrst 13. maí 2006 og er þetta því 15 ára afmæli fyrirtækisins. Af því tilefni verður boðið upp á vöfflur, kaffi og heitt kakó frá klukkan 14-16. Um kvöldið verður veitingastaðurinn opinn og hægt að panta borð. Auk þess verður ný sýning frumsýnd á Söguloftinu klukkan 16. Þar segir Reynir Tómas Geirsson, fyrrum yfirlæknir á Kvennadeild Landspítalans, sögu hins fræga Bayeux refils, en Reynir fagnar einmitt 75 ára afmæli þennan sama dag. Blaðamaður heimsótti hjónin og eigendur Landnámssetursins; Sigríði Margréti Guðmundsdóttur, oftast kölluð Sirrý, og Kjartan Ragnarsson og ræddi við þau um opnunina og þau 15 ár sem liðin eru frá fyrstu opnun Landnámssetursins.

Notað tímann vel

„Það er gífulega ánægjulegt að opna aftur,“ segir Sirrý. „Það var erfitt að þurfa að loka og í vetur var dapurlegt að koma inn í húsin og sjá allt tómt,“ bætir Kjartan við. Þau kölluðu starfsfólk til vinnu í byrjun maí og síðustu daga hefur verið unnið höfðum höndum við að gera allt klárt fyrir opnun. „Eins og það er leiðinlegt að hafa þurft að loka er þó alltaf eitthvað jákvætt í öllu. Fyrir okkur er það að hafa haft tíma til að taka allt í gegn. Við höfum verið að fara yfir sýningarnar okkar um Landnámið og Egilssögu, lagað lýsingu og eitt og annað,“ segja þau og bæta við að einnig sé búið að uppfæra sum sýningaratriðin og laga útlit, en sýningarnar í Landnámssetrinu hafa verið óbreyttar frá því setrið var opnað fyrir 15 árum. „Við höfum líka nýtt tækifærið til að vinna verkefni með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, sem vinnur með okkur að því að gera mjög metnaðarfulla fræðsluáætlun. Við fórum t.d. með allt starfsfólkið okkar á námskeið hjá Terra um sjálfbærni en við ætlum okkur að byrja að flokka allt lífrænt. Svo förum við á námskeið í skyndihjálp, ofnæmisviðbrögum og slökkvitækjanotkun, þrifum, þjónustu og fleiru,“ segir Sirrý. „Við höfum líka fengið góða hjálp hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands við að skipuleggja námskeiðin. Einnig erum við búin að innleiða aukna áherslu á sóttvarnir. Við tökum þátt í verkefni Ferðamálastofu sem gengur undir heitinu Hreint og öruggt. Það sem ég held að Covid hafi kennt okkur er mikilvægi aukinna sóttvarna og hreinlæti. Ég held að ferðamenn muni leggja enn meira upp úr sóttvörnum en áður. Þetta er held ég komið til að vera,“ segir Sirrý.

Sjá ítarlegra viðtal við þau Kjartan og Sirrý í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir