Þrívíddarteikning af nýja vinnslukerfinu.

Skaginn 3X smíðar nýtt uppsjávarvinnslukerfi fyrir Loðnuvinnsluna

Skaginn 3X hefur undirritað samning um smíði nýs uppsjávarvinnslukerfis fyrir starfsemi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Það mun auka sjálfvirkni og vinnslugetu Loðnuvinnslunnar en stefnt er að því að auka afköst vinnslunnar í allt að 400 tonn á sólarhring sem er um 70% afkastaaukning frá því sem nú er. „Nýja kerfið er hannað til að framleiða hágæða vöru á sem hagkvæmastan hátt. Frystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði er sérhæft til vinnslu á uppsjávarfiski, loðnu, síld og makríl. Loðnan er heilfryst á markaði í Austur-Evrópu og Asíu en einnig eru hrogn unnin fyrir sömu markaði,“ segir í tilkynningu. Nýja kerfið sem sett verður upp hjá LVF inniheldur pokakerfi, nýja plötufrysta og sjálfvirkt brettakerfi. Búnaðurinn verður tengdur bæði vélum sem fyrir eru og nýjum búnaði frá öðrum framleiðendum, þar með töldum þjörkum sem auka sjálfvirknina í frystihúsinu.

Frá undirritun samnings um smíðina. Frá vinstri: Þorri Magnússon framleiðslustjóri (LVF), Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF, Ingvar Vilhjálmsson svæðissölustjóri Skagans 3X, Steinþór Pétursson skrifstofustjóri LVF, Einar Brandsson söluhönnuður hjá Skaganum 3X og Rúnar Björn Reynisson vélahönnuður frá Skaganum 3X.

Líkar þetta

Fleiri fréttir