Slökkviliðsmenn á æfingu í Skorradal. Ljósm. úr safni/ kgk.

Hættustigi almannavarna lýst yfir vegna þurrka

Í hádeginu í dag ákvað Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi að lýsa yfir hættustigi almannavarna.

„Svæðið sem um er að ræða nær frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. Þessi ákvörðun er byggð á því að undanfarið hefur lítið rignt þessu svæði og veðurspá næstu daga sýnir ekki neina úrkomu af ráði.“ sagði í tilkynningu. Samkvæmt úrkomuspá í gær, þriðjudag, má búast við lítilsháttar úrkomu á föstudaginn, en þó varla nægjanlega mikilli til að bægja eldhættu frá um vestanvert landið.

Banna opinn eld vegna þurrkatíðar

Hættustig almannavarna er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.  Að lýsa yfir hættustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Samhliða því að fara á hættustig þá hafa allir slökkviliðsstjórar, á því svæði sem hættustig nær yfir, tekið þá sameiginlegu ákvörðun að banna meðferð opins elds vegna þurrkatíðar sem nú geysar. Slökkviliðsstjórar hafa sammælst um að slíkt bann sé nauðsynlegt þar sem mikil eldhætta getur skapast af litlum neista. Bann þetta er í samræmi við reglugerð nr. 325/2016 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

Á bakvaktir um helgar

Mikill viðbúnaður er hjá Slökkviliðum Akraness og Hvalfjarðarsveitar og Borgarbyggðar. Um síðustu helgi var mönnuð bakvakt alla helgina frá hádegi á föstudegi til klukkan 8 á mánudagsmorgni. Sama fyrirkomulag verður um næstu helgi hið minnsta.

Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð var ákveðið að festa fjóra menn á helgarbakvaktir á fjórum starfsstöðvum slökkviliðsins meðan óvissustigið ríkir. Fjórir menn verða því til taks í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst. Ef til bruna kemur á svæðinu um helgar eru þá að sögn Bjarna sextán manns að lágmarki tiltækir auk annarra slökkviliðsmanna sem eiga heiman gengt.

Í tilkynningu frá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar er almenningur hvattur til að huga að eftirfarandi:

  • Kveikja ekki eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðelda, flugelda og fleira)
  • Nota ekki einnota grill sem og venjuleg grill
  • Kanna flóttaleiðir við og frá sumarhúsum
  • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) gera flóttaáætlun
  • Vinna ekki með verkfæri sem hitna mikið eða valdið geta neista
  • Fjarlægja eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
  • Bleyta gróður í kringum hús þar sem þurrt er

Fylgst með raka í jarðvegi

Bjarni Kristinn var nýkominn af fundi með lögreglustjóranum á Vesturlandi þegar rætt var við hann síðdegis á föstudaginn. Hann segir menn verulega áhyggjufulla yfir þurrviðrinu að undanförnu og að óveruleg úrkoma sé í veðurspám fyrir næstu daga. „Með þessu bakvaktafyrirkomulagi tryggjum við að lágmarksmannskapur er til taks ef einhvers staðar kviknar eldur á okkar stóra starfssvæði. Við erum í rauninni að stækka það svæði sem mannskapur er alltaf til taks til að stytta sem kostur er útkallstíma. Slökkvistöðvarnar eru nú til taks í nágrenni svæða sem við höfum áhyggjur af eins og Húsafelli, Munaðarnesi, Skorradal og víðar.“

Bjarni segir að reglulega sé fylgst með raka í jarðvegi til að meta aðstæður. Munurinn á óvissustigi, eins og nú ríkir, og hættustigi sé sá að ef menn meti það svo að jörð verði enn þurrari sé hægt að grípa til hættustigs, en þá opnast sá möguleiki að hægt sé að loka aðgangi að heilu sumarhúsahverfunum þannig að engin umgengni fólks verði um þau. „Í raun er þetta djöfullegt ástand þegar langvarandi þurrkar að vori eru með þessum hætti. Grasið sprettur hægt og nær því ekki að yfirgnæfa sinuna í lítið eða ekkert beittu landi.“

Bjarni vill að endingu höfða til almennrar skynsemi fólks um að gæta ítrustu varúðar með eld og grill og þá sé sígarettuglóð nóg til að kveikja bál, eins og menn muna í aðdraganda Mýraeldanna fyrir fimmtán árum þegar 67 hektarar lands brunnu. „Fólk þarf að vera á tánum og ekki síður að skipta sér af öðrum sem þeir sjá fara óvarlega við þessar aðstæður, nú eða láta vita í 112 ef það sér ástæðu til.“

Hægt er að kynna sér betur hættur vegna gróðurelda á: www.grodureldar.is

Þessi tankur fullur af vatni er nú til taks í sumarhúsahverfinu í Húsafelli. Þar reyna menn að vera við öllu búnir ef eldur verður laus í gróðri. Ljósm. es.

Líkar þetta

Fleiri fréttir