Senn verður ráðist í uppbyggingu 8,5 km vegar frá Kljáfossi og að Högnastöðum í Þverárhlíð. Ljósm. mm.

Uppbygging tveggja tengivega í útboð

Vegagerðin auglýsti nýverið eftir tilboðum í tvær nýframkvæmdir á Vesturlandi; í Melasveit og uppsveitum Borgarfjarðar. Fyrra verkið snýst um endurbyggingu, breikkun, styrkingu og lögn bundins slitlags á um 4,9 kílómetra kafla af Melasveitarvegi frá Bakka að svínabúinu á Melum. Skal því verki verða lokið fyrir 30. júní á næsta ári. Hins vegar er boðin út endurbygging, breikkun, styrking og lögn bundins slitlags á um 8,5 km kafla af Þverárhlíðarvegi sem liggur frá Borgarfjarðarbraut ofan við Kljáfoss, um Hvítársíðu og Stafholtstungur og endað hjá Högnastöðum í Þverárhlíð. Því verki skal að fullu lokið 15. júlí á næsta ári.

Á síðasta ári var boðin út endurbygging tæplega þriggja kílómetra vegspotta frá Hvítá ofan við Húsafell og að Kalmanstungu í Hvítársíðu. Borgarverk hreppti það verk. Loks vinnur Þróttur ehf. við lagningu slitlags á 7,5 kílómetra kafla Álftaneshreppsvegar á Mýrum, milli gatnamóta Snæfellsnesvegar við Langárfoss og Leirulækjar. Vinnu við báða þessa vegarkafla skal lokið fyrir 1. ágúst í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir