Fjöldi umsókna um störf hjá Norðuráli fór fram úr væntingum

Alls bárust 666 umsóknir um sumarstörf hjá Norðuráli í ár. Þá auglýsti fyrirtækið einnig laus störf í ker- og steypuskála á sama tíma og bárust 159 umsóknir í þau störf. Alls sóttu því 825 um störf hjá álverinu. Í tilkynningu frá Norðuráli kemur fram að nýráðningar vegna sumarstarfa voru alls 109 en þar til viðbótar bætast um hundrað manns sem koma aftur til starfa eftir að hafa unnið í álverinu síðasta sumar. „Lögð var áhersla á það í ráðningarferlinu að hafa kynjahlutföll eins jöfn og unnt var og verður hlutfall kvenna meðal sumarstarfsfólks um 40%.“ Nýjar fastráðningar í ker- og steypuskála eru til komnar vegna breytinga á vaktakerfi, sem tóku gildi 1. maí síðastliðinn. Tólf tíma vaktir heyra nú að mestu sögunni til hjá fyrirtækinu og eru nær allar vaktir átta tímar sem mun til dæmis henta fjölskyldufólki betur. Kallaði það á fjölgun starfsfólks.

„Nýliðanámskeið og þjálfun er nú í fullum gangi þar sem aðaláhersla er lögð á verklag sem tryggir öryggi starfsfólks og lágmarkar umhverfisáhrif. Sólveig Kr. Bergmann, yfirmaður samskipta segir að fyrirtækið sé vant því að fá margar umsóknir þegar er auglýst en þessi mikli áhugi hafi farið fram úr öllum væntingum. „Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu margt fólk kemur aftur til starfa hjá Norðuráli og eins er það fagnaðarefni hve jafnt kynjahlutfallið verður meðal sumarstarfsfólks,“ segir Sólveig og bætir við: „Norðurál er eitt stærsta iðnfyrirtæki á Íslandi. Hjá okkur starfa um 600 manns með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Norðurál er jafnlaunavottað fyrirtæki og handhafi gullmerkis PWC.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir