Vinsælt er að fara í heitu pottana í Sundlauginni í Borgarnesi á kvöldin. Ljósm. Úr safni/ Helena Guttormsd.

Breyting á opnunartíma sundlaugar í Borgarnesi

Frá og með deginum í dag mun sundlaugin í Borgarnesi verða opnuð hálftíma síðar á virkum dögum en venja hefur verið til. Er þetta, að sögn sveitarstjóra, hluti af innleiðingu styttingu vinnuvikunnar sem tók gildi 1. maí síðastliðinn. Í staðinn fyrir að sundlaugin verði opnuð klukkan 06:00 mun hún verða opnuð hálftíma síðar, kl. 06:30. Aftur á móti verður óbreyttur opnunartími í líkamsræktarstöðina og geta viðskiptavinir sem nýta sér þess konar heilsurækt haldið sínu striki. Ástæða þess að báðar þessar þjónustur verða ekki opnaðar á sama tíma er í grunninn fjárhagsleg, en strangari reglur gilda um mönnun á sund- og baðstöðum og er sundlaugargæsla á slíkum stöðum skilyrði. Þar við bætist, til að minnka viðbótarkostnað af styttingu vinnuvikunnar og til að auðvelda röðun starfsfólks á vaktir, tók byggðarráð Borgarbyggðar ákvörðun um að stytta opnunartíma sundlaugarinnar í Íþróttamiðstöðinni í upphafi dags frekar en í lok dags þar sem fleiri sundgestir mæta í laugina ef miðað er við meðaltalið yfir árið. Með þessari breytingu verður viðbótarstöðugildi í íþróttamannvirkjunum 50%.

Tilkynnt var um tilvonandi breytingu opnunartíma síðastliðinn miðvikudag og tóku þær gildi í dag, mánudag. Hefur þessi ákvörðun sætt gagnrýni frá árrisulum sund- og baðgestum Íþróttamiðstöðvarinnar sem nýtt hafa sér sundlaugina frá kl. 06:00 á morgnana. Hafa þeir verið boðaðir á fund í vikunni með Þórdísi Sif Sigurðardóttur sveitarstjóra Borgarbyggðar til að ræða málið frekar og eiga samtalið. Hún býst þó ekki við að ákvörðuninni verði breytt en vill engu að síður eiga samtalið við morgungesti laugarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir