Viðgerðar hafnar á ytra byrði Innra-Hólmskirkju

Nú í vikubyrjun hófst viðgerð á Innra-Hólmskirkju við Hvalfjörð. Að sögn séra Þráins Haraldssonar sóknarprests er fyrirhugað að gera við steypuskemmdir og mála kirkjuna, skipta um þak og laga tréverkið í turninum. Vonir standa til að viðgerðum geti lokið á næsta ári, en það ár verður kirkjan 130 ára. Upprunalega var Innra-Hólmskirkja byggð úr timbri, en síðar voru útveggirnir notaðir sem steypumót og steyptur 17 cm þykkir veggir utan á kirkjuna. Þeir veggir hafa smám saman sprungið og gefið sig og hefur byggingin látið verulega á sjá.

„Það er árgangur 1949 sem fermdist í kirkjunni 1963 sem hefur haft veg og vanda af því að koma framkvæmdum af stað. Vorið 1963, rétt áður en þau fermdust, var lokið við miklar viðgerðir á kirkjunni og nú er sannarlega kominn tíma á viðgerð að nýju,“ segir Þráinn. Hann segir að sóknarnefndin hafi haldið jólabasar og hefur nú safnast það mikið að hægt er að hefja framkvæmdir. „Fjármunir sem nú þegar hafa safnast munu hins vegar ekki duga til að klára viðgerðir á kirkjunni. Framundan er því að safna meiri peningum til verksins og sækja um styrki á ýmsum stöðum. Einnig viljum við leita til einstaklinga sem vilja styðja við þetta verkefni. Innra-Hólmskirkja verður 130 ára árið 2022 og er draumurinn að geta haldið veglega hátíð í endurbættri kirkju á afmælisári,“ segir séra Þráinn.

Hann minnir að endingu á söfnunarreikning vegna kirkjunnar: 0326-22-1873 og kennitala 660169-5129.

Líkar þetta

Fleiri fréttir