Hópurinn framan við Fjöliðjuhúsið með hvatningar- og kröfuspjöld til bæjaryfirvalda. Ljósm. Skessuhorn/mm

Tvö ár frá frá bruna í Fjöliðjunni á Akranesi – myndasyrpa

Í dag eru rétt tvö ár frá bruna sem varð í húsnæði Fjöliðjunnar, vinnu- og hæfingarstaðar, við Dalbraut á Akranesi. Nokkru eftir brunann var starfsemi vinnustaðarins komið fyrir í bráðabirgðahúsnæði í Akurshúsinu við Smiðjuvelli. Aðstaðan þar er góð svo langt sem hún nær, að sögn starfsfólks, en engan veginn hentug fyrir mismunandi þarfir allra sem þar starfa. Meirihluti bæjarstjórnar Akraness samþykkti undir lok síðasta árs að byggt verði við núverandi hús á Dalbraut 500 fermetra viðbygging og lagfæra húsið sem brann; skipta um þak og gera upp innandyra. Nú tveimur árum eftir brunann eru hins vegar engar framkvæmdir hafnar við endurbætur á húsinu.

Um fimmtíu manna hópur starfsfólks Fjöliðjunnar ákvað því fyrr í vikunni að minna á hina brýnu þörf um úrbætur í húsnæðismálum vinnustaðarins. Fóru allir fótgangandi með kröfu- og baráttuspjöld til áminningar um framkvæmdaleysið og gengu frá Smiðjuvöllum og að Dalbraut í morgun. Hugmyndina átti Emma Rakel Björnsdóttir. Að sögn Ástu Pálu Harðardóttur yfirþroskaþjálfa í Fjöliðjunni var um afar friðsama áminningu að ræða en táknræna fyrir bæjarstjórn. Segir hún afar brýnt að hafist verði handa sem allra fyrst við framkvæmdir við Dalbraut. Meðal þeirra sem fylgdust með viðburðinum var Ragnar B Sæmundsson bæjarfulltrúi og formaður skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar. Hann sagði í samtali við blaðamann að framkvæmdir við stækkun og endurbætur á Dalbraut muni hefjast á þessu ári en gat þó ekki tímasett þær nánar. Fagnaði hann frumkvæði starfsfólks að minna á málið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir