Frá æfingu Slökkviliðs Borgarbyggðar í Skorradal. Ljósm. úr safni/kgk.

Slökkviliðsmenn komnir á bakvakt vegna óvissuástands

Mikill viðbúnaður er nú hjá Slökkviliði Borgarbyggðar vegna óvissustigs almannavarna, sem lýst var yfir fyrr í vikunni vegna þurrka og eldhættu um allt suðvestanvert landið. Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra er nú búið að festa fjóra menn á bakvaktir á fjörum starfsstöðvum Slökkviliðs Borgarbyggðar allar helgar meðan óvissustigið ríkir. Sömu sögu er að segja hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Bakvaktir eru frá hádegi á föstudögum til klukkan 8 á mánudagsmorgnum. Fjórir menn verða því til taks hjá Slökkviliði Borgarbyggðar í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst. Ef til bruna kemur á svæðinu um helgar eru þá að sögn Bjarna sextán manns að lágmarki tiltækir auk annarra slökkviliðsmanna sem eiga heiman gengt.

Í Húsafelli er nú búið að útbúa þennan vatnstank á vagn sem hægt er að grípa til komi upp eldur. Ljósm. es.

Bjarni Kristinn var nýkominn af fundi með lögreglustjóranum á Vesturlandi þegar rætt var við hann nú rétt í þessu. Hann segir menn verulega áhyggjufulla yfir þurrviðrinu að undanförnu og að engin úrkoma sé í veðurspám fyrir næstu daga. „Með þessu bakvaktafyrirkomulagi tryggjum við að lágmarksmannskapur er til taks ef einhvers staðar kviknar eldur á okkar stóra starfssvæði. Við erum í rauninni að stækka það svæði sem mannskapur er alltaf til taks til að stytta sem kostur er útkallstíma. Slökkvistöðvarnar eru nú til taks í nágrenni svæða sem við höfum áhyggjur af eins og Húsafelli, Munaðarnesi, Skorradal og víðar.“

Bjarni segir að reglulega sé fylgst með raka í jarðvegi til að meta aðstæður. Munurinn á óvissustigi, eins og nú ríkir, og hættustigi sé sá að ef menn meti það svo að jörð verði enn þurrari sé hægt að grípa til hættustigs, en þá yrði einfaldlega lokað heilu sumarhúsahverfunum þannig að engin umgengni fólks yrði um þau. „Í raun er þetta djöfullegt ástand þegar langvarandi þurrkar að vori eru með þessum hætti. Grasið sprettur hægt og nær því ekki að yfirgnæfa sinuna í lítið eða ekkert beittu landi.“ Bjarni vill að endingu höfða til almennrar skynsemi fólk um að gæta ítrustu varúðar með eld og grilla og þá sé sígarettuglóð nóg til að kveikja bál, eins og menn muna í aðdraganda Mýraeldanna fyrir fimmtán árum þegar 67 hektarar brunnu. „Fólk þarf að vera á tánum og ekki síður að skipta sér af öðrum sem þeir sjá fara óvarlega við þessar aðstæður, nú eða láta vita í 112 ef það sér ástæðu til.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir