Unnið við loðnuhrognafrystingu í húsnæði Brims á Akranesi í vetur. Ljósm. frg.

Loðnuafurðir gera aprílmánuð að metmánuði í útflutningi

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 27,3 milljörðum króna í apríl síðastliðnum samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í vikunni. Það er tæplega 54% aukning í krónum talið miðað við apríl í fyrra. Gengi krónunnar var að jafnaði um 5% sterkara nú í apríl en í sama mánuði í fyrra og er aukningin þar með meiri í erlendri mynt, eða um 61%. Þessi mikla aukning litast af áhrifum Covid-19 á útflutning sjávarafurða í apríl í fyrra, enda var mikil ringulreið á mörkuðum á þeim tíma og verulegt rask varð á flutningum á milli landa. Verðmæti útfluttra sjávarafurða á föstu gengi hefur ekki verið meira í aprílmánuði frá árinu 2002, sem er eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná til. Er því ljóst að það kemur meira til sögunnar sem skýrir þessa myndarlegu aukningu á milli ára í apríl en einungis grunnáhrif vegna Covid-19 í fyrra.

Allir undirflokkar sjávarafurða, að undanskildu fiskimjöli og lýsi, seldust meira nú í apríl í samanburði við síðasta ár. Einkum eru tveir flokkar sem standa upp úr. Annars vegar flokkurinn „frystur heill fiskur“ og hins vegar „aðrar sjávarafurðir“. Loðnuaflinn á vertíðinni í vetur vegur þar þyngst, bæði heilfryst loðna og útflutningur frystra loðnuhrogna. Loðnan er ein mikilvægasta fisktegundin við Ísland og hefur skilað næstmestum útflutningsverðmætum á eftir þorskinum af öllum fisktegundum undanfarinn áratug, þrátt fyrir loðnubrest undanfarin tvö ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir