Fallið frá kaupum á Suðurgötu 108

Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum 29. apríl sl. að fallast á ósk kaupanda að Suðurgötu 108, AA húsinu svokallaða, um að falla frá samningi um kaup á eigninni. Húsið hefur verið nokkurn tíma í söluferli. Upphaflega var sett sem skilyrði að söluverð hússins skyldi vera að lágmarki 40 milljónir króna en síðan var ákveðið að falla frá því skilyrði. Verkfar ehf. gerði kauptilboð í húsið sem bæjarráð hafnaði í byrjun nóvember á síðasta ári. Fasteignafélagið Orka ehf gerði kauptilboð í byrjun þessa árs í eignina sem bæjarráð samþykkti á fundi í lok janúar á þessu ári. Nokkuð hefur verið tekist á um sölu hússins í bæjarráði og hefur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ítrekað lýst þeirri afstöðu að vera mótfallinn sölu hússins og vonbrigðum með að ákvörðun um að rífa húsið og úthluta lóðinni að nýju hafi verið snúið við. Það er því ljóst að saga þessa húss hefur ekki öll verið sögð enn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir