Dreymdi að hann væri að hjóla til Sauðárkróks

„Mig dreymdi draum í byrjun þessa árs um að ég væri að hjóla héðan úr Borgarnesi og á Sauðárkrók í Skagafirði. Þessi draumur var mér mjög minnisstæður. Ég ákvað því að hjóla þessa leið á æfingahjólinu sem er hérna í Öldunni. Taka ferðalagið í mörgum áföngum,“ segir Guðmundur Stefán Guðmundsson í samtali við Skessuhorn. Guðmundur býr í íbúð við Skúlagötu í Borgarnesi en sækir daglega vinnu í Ölduna, verndaðan vinnu- og hæfingarstað í Borgarnesi. Hann lætur vel af vinnunni sinni og góðum félagsskap sem hann fær þar. Guðmundur ákvað að setja sér markmið um að hjóla þessa leið norður og skrá nákvæmlega hvaða dag hann hjólaði og kílómetrafjöldann á hverjum degi en æfingahjólið er með hraðamæli og kílómetrateljara svo það var auðvelt að henda reiður á hvar hann var staddur á ferð sinni hverju sinni. Leiðin til Sauðárkróks er 245 kílómetrar.

Guðmundur Stefán hjólaði af stað 11. janúar og fór fyrsta daginn 1,3 kílómetra, eða þetta rétt upp fyrir Borgarnes. Síðan jókst vegalengdin smám saman dag frá degi. „Mér finnst þetta líka svo gott fyrir heilsuna. Þarna setti ég mér markmið um að fara á æfingahjólið á hverjum degi og svei mér þá ef ég finn ekki mun á mér eftir að ég hjólaði af stað,“ segir hann. Smám saman lengdist vegalengdin á hverjum degi en samkvæmt skráningu Guðmundar Stefáns hjólaði hann mest 6,6 kílómetra á einum degi, bæði 24. og 25 mars. Þriðjudaginn 27. apríl lauk hann svo ferðinni á Sauðárkróki. „Mér finnst mjög gaman að hafa hjólað alla þessa leið, svona í huganum. Ég var um tíma orðinn leiður á að hjóla en svo hressti ég mig við undir lokin. Nú er ég jafnvel að hugsa um að halda ferðinni áfram frá Sauðárkróki og fara til Akureyrar í næsta áfanga,“ segir hann hróðugur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir