Semek Andri Þórðarson kastar ísnum fagmannlega yfir aflann áður en hann vigtar og gengur frá honum í Grundarfirði. Ljósm. tfk.

Strandveiðitímabilið hófst á mánudaginn

Strandveiðitímabilið hófst á mánudaginn í einstaklega góðu veðri en heimilt var að sigla út strax eftir miðnætti. Ríflega 400 bátar höfðu sótt um leyfi á fyrsta degi tímabilsins á landsvísu en fastlega má búast við því að sá fjöldi eigi eftir að allt að því tvöfaldist þegar lengra líður inn á sumarið. Mikillar tilhlökkunar gætti í röðum sjómanna eins og glögglega mátti merkja í höfnum á Vesturlandi í aðdragandanum „þjóðhátíðardagsins,“ eins og sumir kalla þennan fyrsta dag strandveiða. Í mánuðunum maí, júní, júlí og ágúst er heimilt að veiða á handfæri allt að 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa eða samtals 11.000 lestir af óslægðum botnfiski á strandveiðum. Veiðitímabil hvers báts er 12 dagar í mánuði og skulu veiðarnar fara fram á mánudögum til og með fimmtudögum.

Tíðindamenn Skessuhorns voru á ferðinni á mánudaginn og fönguðu stemninguna á Snæfellsnesi þaðan sem langflestir gera út í landshlutanum. Myndir frá deginum eru í Skessuhorni vikunnar.

Líkt og síðustu ár er fjöldi smábáta sem gerður er út frá Arnarstapa á Snæfellsnesi, enda er þaðan stutt að fara á fengsæl mið. Þessa mynd tók Gunnhildur Lind ljósmyndari Skessuhorns síðdegis á mánudaginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir