Áslaug með Ásdísi Birtu til vinstri og Daníelu. Ljósm. Skessuhorn/mm

Nýtur þess að eiga dúkkubörn

Hún Áslaug Þorsteinsdóttir starfar í Fjöliðjunni á Akranesi og sinnir þar einkum móttöku og talningu drykkjarvöruumbúða. Áslaug hefur frá árinu 2004 búið í íbúð sem Öryrkjabandalagið á við Eyrarflöt á Akranesi en hún er Borgfirðingur að ætt og uppruna en fluttist á Akranes þegar hún hóf nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 1993. Áslaug hefur verið dugleg að rækta líkama og sál samhliða því að vinna í Fjöliðjunni. Hún tekur virkan þátt í ýmsu félagsstarfi, æfir sund og boccia, er í perlusaumi og hestamennsku á sumrin. Kærastinn hennar og vinnufélagi heitir Róbert Örn Kristjánsson. Hann býr í Herdísarholti en heimsækir Áslaugu og oft elda þau saman góðan mat um helgar eða panta sér pizzu. En Áslaug er ekki ein á heimilinu. Hún á tvo gára, páfagaukana Tinna og Pílu en sömuleiðis á hún dúkkudæturnar Ásdísi Birtu og Daníelu.

„Mér finnst mjög skemmtilegt og gefandi að vera með dúkkubörn. Fyrst fékk ég Daníelu árið 2019 og Ásdís Birta bættist svo við á þessu ári. Ég vildi hafa þær tvær stelpurnar mínar. Þær eru alltaf hjá mér og eru þá ýmist í stólunum sínum að horfa á sjónvarpið eða úti í vagni og ég læt þær sofa úti á svölum. Svo fer ég oft út að hjóla með þær,“ segir Áslaug. Hún segir að það sé ekkert vandamál að fá föt á dúkkubörn, hún kaupi þau ýmist í Lindex eða fer í Búkollu þegar nytjamarkaðurinn þar er opinn. „Við erum fjórar sem eigum dúkkubörn hérna á Akranesi. Ég kynntist dúkkubörnum fyrst hjá konu sem bjó á Selfossi en býr nú á Eyrarbakka. En það er fullt af konum á landinu sem eiga dúkkubörn. Daníela og Ásdís Birta veita mér mikla ánægju og það er gaman að geta hugsað um þær,“ segir Áslaug Þorsteinsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir