Lögregla á Vesturlandi byrjar að sekta fyrir nagladekkin 10. maí

Formlega er bannað að aka um á negldum hjólbörðum eftir 15. apríl ár hvert. Yfirleitt hefur lögregla þó ekki beitt fjársektum fyrir slíkt fyrstu dagana á eftir, enda er það svo að íslensk veðrátta og færð er ekki endilega í samræmi við dagatalið. Lögreglan á Vesturlandi hefur nú sent frá sér tilkynningu þess efnis að nú eigi allir bíleigendur að vera komnir á óneglda hjólbarða. „Við förum að sekta þann 10. maí þá ökumenn sem enn aka um á nagladekkjum,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu LV.

Sekt fyrir hvern negldan hjólbarða er 20 þúsund krónur þannig að sekt getur numið allt að 80 þúsund krónum fyrir fólksbíl eða jeppa. Miklar annir eru nú víða á dekkjaverkstæðum landsins og ljóst að ekki fá allir bíleigendur þjónustu í tæka tíð við dekkjaskiptin áður en lögreglan fer að beita sektum. Á Akranesi er staðan t.d. þannig á dekkjaverkstæðum að fjögurra til fjórtán daga bið er eftir dekkjaskiptum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir