Í broddi fylkingar hjóluðu Sigurður Ingi, Lilja Dögg og Dagur.

Nú fara allir hjólandi í vinnuna

Átakið Hjólað í vinnuna var sett með hátíðlegum hætti í morgun þegar ýmis fyrirmenni hjóluðu af stað. Það er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) sem stendur að átakinu sem varir í þrjár vikur eða til 25. maí. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferðamáta.  „Við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni og sinna sinni daglegri hreyfingu. Það er mjög mikilvægt fyrir vinnustaði landsins að standa vörð um starfsandann á þessum fordæmalausu tímum. Verkefnið Hjólað í vinnuna er góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman. Hjólreiðar eru bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti og jafnframt eru þær frábær útivist, hreyfing og getur verið öflug líkamsrækt,“ segir í tilkynningu frá ÍSÍ.

Í vinnustaðakeppni er fyrst og fremst keppt um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum. Keppt er í átta keppnisflokkum út frá stærð vinnustaða. Að auki er kílómetrakeppni þar sem keppt er á milli liða um annars vegar heildarfjölda kílómetra og hins vegar hlutfall kílómetra miðað við fjölda liðsmanna í liði. Líkt og á síðasta ári hvetjum við þá sem vinna heiman frá sér að byrja eða enda vinnudaginn á því að hjóla, ganga eða nýta annan virkan ferðamáta sem nemur kílómetrum til og frá vinnu. Einfaldara getur það ekki verið og allir geta tekið þátt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir