Þau kynntu umræðuskjalið. F.v. Hlédís Sveinsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Björn Bjarnason.

Kynntu umræðuskjal um Landbúnaðarstefnu fyrir Ísland

Landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd, nýsköpun og tækni eru þrjár lykilbreytur sem munu marka landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til framtíðar. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stóð í dag fyrir fjarfundi þar sem kynnt var Ræktum Ísland! umræðuskjal um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Meginþættir landbúnaðarstefnu framtíðarinnar eru að treysta fæðuöryggi, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra landnýtingu, auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni á grundvelli vísinda og nýjustu tækni og stuðla að því að blómlegur landbúnaður þrífist um land allt.

Ræktum Ísland! er umræðuskjal verkefnastjórnar um landbúnaðarstefnu en hana skipa Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, og Hlédís H. Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri. Með umræðuskjalinu er opnað á frekara samtal og samráð. Þar er að finna meginatriði eða tillögur í 19 efnisköflum sem lagt er til að verði lögð til grundvallar við endanlega gerð landbúnaðarstefnunnar og aðgerðaráætlunar í samræmi við hana.

Í tillögum verkefnisstjórnar er hugað að umgjörð landbúnaðarins í heild og því ekki fjallað sérstaklega um einstakar búgreinar. Núverandi búvörusamningar gilda til ársins 2026 og er tilgangur skjalsins að vísa veginn við gerð slíkra samninga í framtíðinni. Við gerð meginatriðanna var tekið mið af þremur lykilbreytum sem munu hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar á komandi árum:

  • Landnýting. Sjálfbær nýting beiti- og ræktunarlanda er lykilatriði ef tryggja á framtíð landbúnaðar á Íslandi. Vatn og nytjaland til ræktunar eru meðal mestu verðmæta samtímans hvert sem litið er í veröldinni. Mikilvægt er að sátt ríki um sjálfbæra landnýtingu.
  • Loftslagsmál – umhverfisvernd. Samhliða sífellt minni losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna manna verður að minnka losun frá landi og binda kolefni í vistkerfum. Á þetta ber að leggja megináherslu í landbúnaðarstefnu. Verkið verður ekki unnið án þátttöku bænda og án þess að hlutur þeirra sé metinn til fjár á einn hátt eða annan.
  • Tækni – nýsköpun. Með nýtingu nýrrar tækni má gjörbreyta aðferðum á sviði landbúnaðar eins og annars staðar. Þá hefur tækni til að tryggja rekjanleika matvæla allt frá beitarlandi til borðstofu tekið stórstígum framförum.

Í byrjun júní mun Kristján Þór efna til tíu opinna funda (með fyrirvara um sóttvarnareglur) um allt land til að kynna skjalið og eiga samtal um það.  Verkefnisstjórnin verður einnig á fundunum. Auk þess hefur umræðuskjalið þegar verið birt á Samráðsgátt stjórnvalda og verður hægt að veita umsögn þar til 26. maí nk. Hér á Vesturlandi er fyrirhugað að halda kynningarfund í LbhÍ á Hvanneyri 1. júní klukkan 20.

Líkar þetta

Fleiri fréttir