Köttur fannst eftir átta ára útlegð

Á vef Villikatta á Vesturlandi er sagt frá því að nýverið fannst köttur á Akranesi, sem upphaflega átti heimili sitt í Reykjavík. Kötturinn hafði þá verið í átta ár á flækingi á Akranesi og ekki vitað til að hann hafi átt fast heimili allan þennan tíma. „Haft var samband við okkur vegna kattar sem hélt sig í garði hér á Akranesi. Sjálfboðaliði fór á staðinn og skannaði örmerkið í kisu. Í ljós kom að fressið ber nafnið Smigly og sömuleiðis kom í ljós að hans hafði verið saknað í átta ár af heimili sínu í Reykjavík.“ Kötturinn er nú að verða 12 ára og hefur því verið týndur meirihluta ævi sinnar. „Mjög líklegt er að Smigly hafi óvart fengið far með bíl á sínum tíma.“ Þá segir að þarna sjáist vel hversu mikilvægt er að örmerkja ketti, „en án örmerkis hefðum við ekki getað haft upp á eiganda Smigly,“ segja Kattavinir á Vesturlandi.

Eigandi Smigly trúði vart sínum eigin eyrum þegar hann fékk símtalið frá Kattavinum. Farið var með köttinn til hans og urðu miklir fagnaðarfundir með kettinum og eiganda hans sem væntanlega munu lifa hamingjusömu lífi hér eftir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir