Svipmynd frá kröfugöngu á Akranesi. Ljósm. úr safni/mm

Til hamingju með daginn!

Baráttudagur verkalýðsins er í dag, 1. maí. Engin kröfuganga verður farin á Vesturlandi í dag vegna samkomutakmarkana, annað árið í röð.

Miðstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum 17. mars að slagorðið fyrir 1. maí 2021 yrði „Það er nóg til.“ Í samþykktinni segir m.a.: „Það er nóg til“ er orðatiltæki sem allir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“.

„En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur.“ Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því allra besta sem þekkt er í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi. Hægur er vandinn, það er nóg til.“

Formenn verkalýðsfélaganna á Vesturlandi minna á útsendingu RÚV frá sérstakri skemmti- og hvatningardagskrá, Byggjum réttlátt þjóðfélag, sem flutt verður í Hörpu í tilefni baráttudags verkalýðsins. Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar einkenna þennan sögulega viðburð. Að dagskránni standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. Útsendingin hefst kl. 17:10.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir