Sveinbjörn Reyr er sjálfur á flotbryggjunni og er hér að þakka fyrir sig áður en fyrstu stökkvarar létu vaða í sjóinn. Ljósmyndir Skessuhorn; mm/gó.

Myndasyrpa – Stokkið fyrir Svenna

Fjölmenni er nú statt í nágrenni Akraneshafnar, en áheitaverkefnið Stokkið fyrir Svenna hófst klukkan 10 í morgun. Eins og ítarlega hefur verið kynnt í Skessuhorni er það árgangur 1971 á Akranesi, með Pétur Magnússon í fararbroddi, sem haft hefur veg og vanda að skipulagningu viðburðarins, en safnað er fyrir einn jafnaldrann úr hópnum, Sveinbjörn Reyr Hjaltason, sem slasaðist alvarlega á síðasta ári þegar hann var við akstur í motocrossbrautinni á Akranesi. Safnað er fyrir sérsmíðuðu, handknúnu reiðhjóli handa Svenna sem kostar á þriðju milljón króna. Í fyrstu var lagt upp með að minnsta kosti 71 stökkvari fengist til að stökkva í sjóinn af smábátabryggjunni. Nú er ljóst að sá hópur verður talsvert stærri, enda hafa fjölmörg fyrirtæki, félög, starfsmannahópar og einstaklingar skráð þátttöku sína og safnað áheitum.

Fyrstu stökkin í höfnina tóku Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir Skagakona og ferðamálaráðherra, þvínæst Halli Melló leikari og loks Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri. Í kjölfarið stökk hópur úr Club71, vinnufélagar Svenna, starfmannahópar og fleiri ungir sem aldnir. Veður er ágætt við Akraneshöfn, en kalt. Áætlað er að stokkið verði til klukkan 3 í dag. Björgunarfélag Akraness er með gæslu, aðstoð og viðbúnað á staðnum. Þá er fjöldi fólks að fylgjast með af nærliggjandi bryggjum. Frábær stemning er við Akraneshöfn og sjálfsagt að kíkja við, gleðjast með góðum hópi og að sjálfsögðu að leggja söfnuninni lið.

Skessuhorn mun síðan birta fleiri myndir frá viðburðinum.

Sjá viðtal við Svenna í síðasta Skessuhorni.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir