Þetta kort af svæðinu birti Heiðar á síðu sinni. Lagt er til að sendi verði komið upp á Staðarhnúki, en hann er merktur með rauðum hring. Stjarnan sýnir staðinn sem bíll mannsins fannst.

Þéttara net fjarskiptasenda afar aðkallandi í Borgarbyggð

Að kvöldi síðasta miðvikudags voru björgunarsveitir á Vesturlandi kallaðar til leitar að manni sem saknað var. Fannst hann síðar um kvöldið heill á húfi innan við Grímsstaði á Mýrum, á vegslóða að Langavatni. Hafði hann fest bíl sinn á slóðanum og haldið til í honum í þrjá daga, þar til hann loks fannst. Maðurinn gat ekki látið vita af ferðum sínum þar sem ekkert fjarskiptasamband er á þessum stað. Meðal þeirra björgunarsveita sem tóku þátt í leit og björgun mannsins var björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði. Arnar Grétarsson formaður sveitarinnar segir í samtali við Skessuhorn að hefði uppbygging fjarskipta í héraðinu verið með eðlilegum hætti hefði maðurinn getað látið vita af ferðum sínum og ekki þurft að kalla til fjölmenna leit. Fjarskiptamastur á Staðarhnúki myndi skipta sköpum fyrir stór svæði héraðsins.

Í færslu sem skrifuð er á Facebook síðu Heiðars segir: „Maðurinn hafði lent í hrakningum og fest bíl sinn á svæði sem er utan GSM-símasambands. Næsti sendir sem hafði numið merki frá síma mannsins er sendir á Skáneyjarbungu í Reykholtsdal sem er í ca. 27 km fjarlægð í beinni loftlínu.“ Leitarsvæði björgunarsveitafólks varð því margfalt umfangsmeira, en ella, ef fjarskiptasendar væru fleiri í héraðinu. „Við höfum lagt til við símafyrirtæki, að settur verði upp GSM-sendir á Staðarhnjúk, og hefði sá sendir mögulega komið í veg fyrir að til útkallsins hefði komið. Símafyrirtæki hafa svarað þeirri ósk með að uppsetning á sendi á þessu svæði sé ekki markaðslega hagkvæmur. Í framhaldi af því svari höfðum við samband við Neyðarlínuna og lögðum til að Tetra-sendir yrði settur upp á staðnum, þá væri kominn sendir og mastur og hagkvæmara fyrir símafyrirtækin að setja upp sína senda í kjölfarið. Geta má þess að Tetra-samband er mjög lélegt á þessu svæði. Neyðarlínan hefur tekið vel í þessa tillögu en okkur skilst að sá fjármagnskvóti sem Neyðarlínan hafi í uppsetningu á Tetra-sendum sé búinn að sinni og því ekki á döfinni að þessi sendir komi á næstu misserum. Við viljum því biðla til þeirra sem fjárveitingarvaldið hafa að greiða götu Neyðarlínunnar svo hún geti haldið áfram á þeirri góðu vegferð að bæta fjarskipti og auka öryggi í dreifbýlli sveitum,“ segja félagar í björgunarsveitinni Heiðari.

Líkar þetta

Fleiri fréttir