Bæjarsjóður Akraneskaupstaðar gerður upp með 133 milljóna afgangi

Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn á þriðjudaginn. Megin niðurstaðan var sú að 133 milljóna króna rekstrarafgangur var á síðasta ári og skuldir lækkuðu um 360 milljónir króna. „Ár varnarsigra, viðspyrnuaðgerða og mikillar uppbyggingar sjáanlegar í ársreikningi 2020,“ segir í tilkynningu frá bæjarstjórn.

Meðal helstu þátta í ársreikningi kemur fram að rekstrarafgangur var lítið eitt meiri en áætlað hafði verið með viðaukum eða 23 milljónum meiri. Skuldaviðmið er nú 24%. Skuldir við lánastofnanir eru 1.057 milljónir króna og hafa lækkað um 173 milljónir króna og lífeyrisskuldbindingar eru 3.775 milljónir króna og hafa lækkað um 187 milljónir króna á milli ára. Heildartekjur sveitarfélagsins voru 8.153 milljónir króna árið 2020 og voru 3,2% eða samtals 261 milljón króna yfir áætlun. Veltufé frá rekstri hjá samstæðunni var 9,8% af heildartekjum eða 798 milljónir króna. Handbært fé í árslok var 1.810 milljónir króna en lækkaði um 494 milljónir króna á árinu. Fjárfesting í varanlegum rekstarfjármunum voru 1.073 milljónir króna á árinu 2020, afborganir langtímalána voru 249 milljónir og greidd lífeyrisskuldbinding var 551 milljón króna á árinu.

Útsvarstekjur jukust á síðasta ári meira en gert hafði verið ráð fyrir en skatttekjur alls voru 173 milljónum króna hærri en á fyrra ári. Framlög Jöfnunarsjóðs lækkuðu um 25 milljónir frá fyrra ári. Aðrar tekjur jukust hins vegar um 97 milljónir króna á milli ára.

Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun, að því að fram kemur í tilkynningunni. Heildareignir í lok árs námu samtals 14.844 milljónum króna en lækkuðu um 194 milljónir króna milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 6.449 milljónum króna og lækkuðu um 311 milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir lækkuðu um 173 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding lækkaði um 187 milljónir króna og skammtímaskuldir hækkuðu um 49 milljónir króna.

Rekstrarafgangur ársins var jákvæður um 179 milljónir króna fyrir A hluta og neikvæður um 46 milljónir króna fyrir B hluta.

Varnarsigur

„Markviss vinna er að skila okkur 133 milljónum króna rekstarafgangi sem er ákveðinn varnarsigur sem við erum stolt af en afar mikilvægt er að halda áfram að vera ábyrg í fjármálastjórninni og draga úr útgjaldaaukningunni á þessu ári. Ársreikningur einkennist af viðspyrnuaðgerðum til stuðnings atvinnulífi og samfélaginu, jafnframt af verulegum fjárfestingum, töluverðri niðurgreiðslu langtímalána og lífeyrisskuldbindinga og sést að fjárhagur kaupstaðarins stendur styrkum fótum. Við erum í sóknarhug og er mikil uppbygging framundan m.a. bygging nýs leikskóla í Skógarhverfi, nýs íþróttahúss við Jaðarsbakka, bygging reiðhallar, nýrrar þjónustumiðstöðvar aldraðra, umtalsverð gatna- og stígagerð og viðhald eldri gatna,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

Jafnframt segir að áhrif viðspyrnuaðgerða Akraneskaupstaðar til eflingar atvinnutækifæra og stuðnings samfélaginu og hækkun launakostnaðar vegna endurnýjaðra kjarasamninga eru vel sýnileg í ársreikningnum og vex rekstarkostnaður töluvert umfram rekstartekjur vegna þessa.  „Við sjáum áhrif þessarar viðspyrnu að uppsveifla á Akranesi er nú sjáanleg og fóru launagreiðslur á Akranesi hækkandi seinni hluta ársins 2020 eftir samdrátt vegna Covid-19 á fyrri hluta ársins. Launagreiðslur til launþega á Akranesi lækkuðu um 727 milljónir milli ára en atvinnuleysisgreiðslur hækkuðu um 557 milljónir króna á milli ára.“

„Nýtum sóknarfærin“

„Nú er mikilvægt að nýta þau sóknartækifæri sem eru í atvinnumálum og uppbyggingu því tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Frábær vinna er í þróunarfélögunum á Breið og Grundartanga. Við viljum hvetja til atvinnutengdra fjárfestinga í Flóahverfi, við Guðlaugu, á Breiðinni og á Langasandsreit. Á Breið er vinna í rannsóknar- og nýsköpunarsetri í fullum gangi og í undirbúningi breytt deiliskipulag þar sem markmið er að verði hátæknistarfsemi, heilsutengd ferðaþjónusta, hafsækin starfsemi svo eitthvað sé nefnt. Við Guðlaugu er hugmyndasamkeppni í fullum gangi og verður spennandi að sjá útkomuna. Í Flóahverfi undirbúum við nú af kappi vistvæna iðngarða og á Grundartanga eru mögnuð tækifæri til uppbyggingar gufuaflsvirkjunar, hitaveitu og framleiðslu rafeldsneytis,“ segir Sævar Freyr, sem fór yfir helstu niðurstöður ársreikningsins í upphafi bæjarstjórnarfundar síðatliðinn þriðjudag.

Gott ár í uppbyggingu og fjárfestingum

Meðal helstu framkvæmda á síðasta ári voru 383 milljónir króna í fimleikahús, 201 milljón króna í nýja þjónustumiðstöð við Dalbraut, 84 milljónir króna vegna breytinga í Brekkubæjarskóla, 237 milljónir króna í gatnagerð og gangstíga, 43 milljónir króna í nýjan leikskóla og 31 milljón króna í reiðhöll hestamannafélagsins Dreyra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir