Nýja sjósundsskýlið er komið í notkun. Ljósm. sá.

Sjósundsskýli reist og tekið í notkun í Stykkishólmi

Stykkishólmsbær greinir frá því á vef sínum að tímabundið skýli fyrir sjósundskappa, til að hafa fataskipti í, hafi verið reist við Móvík og jafnframt að stigi með handriði hafi verið lagður niður í fjöruna. Jafnframt segir að bænum hafi borist ábending frá íbúa þar sem athygli hafi verið vakin á því að hópur fólks í bæjarfélaginu stundi sjósund af miklu kappi. Hópurinn hafi fyrst komið saman í ágúst 2019 og kallað sig Sjósundsfélag Stykkishólms. Hópurinn hafi alla jafnan haldið til sjós úr Móvík en einnig úr Nesvoginum, en að samkvæmt skýrslu um hreinleika sjávar umhverfis Stykkishólm sé ljóst að Móvíkin henti einkar vel til sjósunds.

Þá segir að Móvíkin sé skjólsæl en eftir þungan vetur hafi víkin fyllst af þangi og grjóti sem hafi gert sjósundsfélögum erfitt fyrir. „Í maí 2020 var óskað eftir því að Stykkishólmsbær kæmi til aðstoðar við hreinsun fjörunnar af þangi og grjóti og sú beiðni lögð fyrir bæjarráð, sem svo óskaði eftir fundi með Sjósundsfélagi Stykkishólms. Í ágúst 2020 mættu fulltrúar sjósundsfélagsins á 617. fund bæjarráðs Stykkishólmsbæjar þar sem þær gerðu grein fyrir starfsemi félagsins og óskum sínum um lagfæringar á aðstöðu í Móvík. En hópurinn gekk strax um með stóra drauma hvað varðar aðstöðu, lítið hús við Móvík svo hægt væri að klæða sig í skjóli og sauna til að ylja sér eftir sundsprettinn.

Í fréttinni á vef Stykkishólmsbæjar er vakin athygli á að um sé að ræða tímabundna ráðstöfun sem verði endurskoðuð þegar opnað verður á úthlutun lóða í Víkurhverfinu, en ekki er útilokað að slík aðstaða og íbúabyggð geti farið vel saman sem myndi leiða af sér skipulagsbreytingar á svæðinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir