Leit að fullorðnum manni bar árangur í gærkvöldi

Björgunarsveitir á svæði 4 hjá Landsbjörgu; frá Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði, voru um kvöldmatarleytið í gær kallaðar út til leitar að karlmanni á áttræðisaldri. Ættingjar höfðu saknað mannsins í tvo daga og hafið eftirgrennslan ásamt lögreglu höfuðborgarsvæðisins og á Vesturlandi en án árangurs. Einnig var leitað úr þyrlu Landhelgisgæslunnar í gærdag. Hátt í 80 björgunarsveitarmenn voru við leit þegar mest var og skilaði hún árangri um tíuleytið í gærkvöldi. Björgunarsveitarfólk fann manninn heilan á húfi ofan við Grímsstaði á Mýrum, á vegslóðanum að Langavatni. Þar hafði hann fest bíl sinn í vikubyrjun. Hann var án matar og drykkja og bíll hans orðinn bensínlítill þegar hann fannst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir