Mannmergð á Langasandi.

Kvikmyndin Akranes 1947 nú aðgengileg öllum

Á streymisvef Kvikmyndasafns Íslands, islandafilmu.is, er kvikmyndin Akranes 1947 nú aðgengileg öllum. Kvikmyndin var nýlega skönnuð hjá safninu og er því í eins góðum gæðum og filmurnar sem varðveittar eru bjóða upp á. Útgáfa myndarinnar var fyrst sýnd árið 1976 þar sem aldrei tókst að klára myndina á fimmta áratugnum. Þegar myndin var sett saman um þremur áratugum eftir kvikmyndun hennar var lögð hljóðrás við myndina en þulur hennar er Valdimar Indriðason þáverandi bæjarfulltrúi. Það skal því hafa í huga þegar horft er á myndina að hljóðrásin er töluvert yngri en myndefnið. Saga myndarinnar er nokkuð fróðleg og verður hún rakin stuttlega hér.

Akranes gerir samning við kvikmyndaframleiðslufyrirtæki

Stilla úr kvikmyndinni Akranes 1947. Sjómannadagurinn á Akranesi 1947. Skrúðganga gengur að Akraneskirkju og séra Jón M. Guðjónsson fer fremstur í flokki.

Fimmti áratugur síðustu aldar var kröftugt skeið í sögu Akraness. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1942 og var hann ört vaxandi með tilheyrandi uppbygginu íbúðarhúsa. Samtakamáttur samfélagsins var mikill og höfðu þrjú íþróttamannvirki risið á skömmum tíma að mestu með þegnskylduvinnu en mannvirkin voru; leikfimishúsið við Vesturgötu, íþróttahúsið við Laugarbraut og Bjarnalaug. Þá hafði Haraldur Böðvarsson gefið bæjarfélaginu Bíóhöllina. Arnaldur Jónsson, ungur blaðamaður á Tímanum, lýsti breyttu samfélagi á Akranesi í blaðagrein árið 1942. „Ferðamaðurinn, sem kemur til Akraness í þeim tilgangi að sjá þar með eigin augum hið forna verstöðvalíf, grípur í tómt. Lífið á Skaganum er breytt. Þar er ekki lengur tilbreytingarsnauð tilvera fárra bátshafna, heldur fjörugt athafnalíf og margþáttur atvinnurekstur,“ ritaði Arnaldur.

Skagamenn voru stórhuga. Snemma árs 1947 birtist viðtal við Guðlaug Einarsson, bæjarstjóra Akraness, í Vísi: „Akranesbær hefir gert samning við kvikmyndafélagið Sögu h.f. um að kvikmynda bæinn og mun þetta verða fyrsta stórmyndin sem félagið lætur gera, enda mun sýning hennar eiga að taka 1½ – 2 klst […] Þetta verður sögulegt- og menningarsögulegt plagg sem öðrum bæjum á Íslandi ætti að verða til eftirbreytni,“ stóð í viðtalinu við Guðlaug.

Mennirnir sem sáu um kvikmyndagerðina voru Sören Sörensen og Gunnar Rúnar Ólafsson (ranglega titlaður Guðmundsson í lok myndarinnar) og hófu þeir störf í febrúar árið 1947 í athöfn í Akraneskirkju þegar Ólafur Finsen, fyrrum héraðslæknir, og séra Friðrik Friðriksson voru gerðir að heiðursborgurum Akraness. Síðan var meira myndað eins og vinnsla í frystihúsi. Þegar leið að vori voru filmurnar sendar til Svíþjóðar til framköllunar og þegar þær komu til baka fékk bæjarstjórnin að sjá afraksturinn. „Ef öll myndin verður þessu lík má fullyrða að hún hafi tekizt mjög vel, og verða bæði bænum og þeim sem tóku til hins mesta sóma,“ sagði í tímaritinu Akranes í annál sem ritstjórinn og forseti bæjarstjórnar, Ólafur B. Björnsson tók saman. Tökur héldu áfram sumarið 1947 þar sem Gunnar Rúnar og Sören tóku upp talsvert mikið efni.

Akranesmyndinni bjargað

Keppt í knattspyrnu á Sjómannadaginn 1947 og etja kappi íbúar Uppskaga og Niðurskaga.

Það fjaraði undan verkefninu fljótlega eftir að tökum Sörens og Gunnars lauk sumarið 1947 og það varð aldrei af sýningum á myndinni. Árin liðu og myndin féll í gleymskunar dá. Hvað olli því er óljóst en trúlega hefur peningaskortur verið ástæða fyrir því enda framleiðslan á svo metnaðarfullu verkefni mjög dýr. Það var svo þjóðhátíðarárið 1974, þegar Íslendingar héldu með veglegum hætti upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, sem ákveðið var að framleiða aðra kvikmynd um Akranes. Í verkið voru fengnir kvikmyndagerðarmennirnir Þrándur Thoroddsen og Jón Hermannsson. Um ári síðar var sú kvikmynd tilbúin til sýninga og þegar líða fór að frumsýningu hennar komst þáverandi bæjarstjórn á snoðir um hina löngu gleymdu Akranesmynd frá 1947. Var því ákveðið að hafa samband við Sören Sörensen og kanna hvort hann ætti gömlu filmurnar enn, en þær voru þá að verða 30 ára gamlar. Eftir mikla leit fundust filmurnar blessunarlega og voru afhentar bæjarstjórn Akraness. Filmurnar höfðu verið geymdar við óviðunandi aðstæður og voru orðnar afar lélegar. Myndefnið þótti mjög áhugavert og ákvörðun var tekin að bjarga því sem bjargað yrði og voru filmurnar sendar út til Englands til kóperíngar. Var tekin sú ákvörðun að slá frumsýningu Akranesmyndarinnar frá 1974 á frest og vinna við að gera myndina frá 1947 upp og frumsýna þær saman. Sá Jón Hermannsson um frágang og hljóðsetningu á myndinni og samdi Valdimar Indriðason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi, þulartexta og las inn á myndina. Var Akranesmyndin 1947 svo loks frumsýnd með Akranesmyndinni frá 1974 11. júní árið 1976 í Bíóhöllinni og var mikil ánægja með þær.

Sjá myndina hér

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bayeux og Borgarnes

Það var góð tilfinning að koma í Landnámssetur Íslands síðastliðinn fimmtudag og finna þar aftur fullt hús af menningarþyrstum leikhúsgestum.... Lesa meira