Löndun úr handfærabátnum Naustvík ST í Ólafsvík síðastliðinn sunnudag. Ljósm. af.

Góð aflabrögð frá höfnum Snæfellsbæjar eftir hrygningarstoppið

Aflabrögð hafa verið mjög góð í Snæfellsbæ eftir að hrygningarstoppinu lauk 21. apríl síðastliðinn. Að sögn Kristjáns Sæbjörnssonar, hafnarvarðar í Rifi, hafa aflabrögð verið mjög góð og nefndi hann að dragnótarbáturinn Esjar SH hafi landað tvisvar á dag nokkra daga og á sunnudag var hafi aflinn yfir daginn verið 32 tonn í tveimur löndunum. Netabáturinn Bárður SH kom með 25 til 40 tonn eftir daginn. Einnig hafa handfærabátar verið að fá mjög góðan afla eða 3,5 tonn. Afli línubátanna hefur verið rokkandi og hafa a.m.k. þrír þeirra farið suður til veiða eða allt frá Akranesi og til Grindavíkur, segir Kristján, og bætir við að almennt séu sjómenn bjartsýnir á komandi sumar.

Sigurður Sveinn Guðmundsson hafnarvörður í Ólafsvík tók í sama streng og Kristján og sagði að aflinn hafi verið mjög góður og nefndi í því sambandi að línubáturinn Hafdís SK hafi landað 17 tonnum eftir einn róður á sunnudag og handfærabátarnir fengið góðan afla svo það er yfir engu að kvarta hér, sagði Sigurður.

Guðmundur Ívarsson hafnarvörður á Arnarstapa sagði að á sunnudag hafi verið fjórir handfærabátar á sjó og allir með yfir tonnið. „Það eru komnir 12 handfærabátar nú þegar hingað á Arnarstapa og þegar strandveiðibátarnir fara að koma má búast við að fjöldi báta sem landa hér í sumar verði á bilinu 40 til 50 og þá færist heldur betur líf í tuskurnar,“ sagði Guðmundur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir