Þórður Guðnason tekur í júní við starfi Gísla Björnssonar sem yfirmaður sjúkraflutninga hjá HVE. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Þórður ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga hjá HVE

Nýverið auglýsti Heilbrigðisstofnun Vesturlands laust til umsóknar starf yfirmanns sjúkraflutninga hjá stofnuninni. Gísli Björnsson hefur gegnt starfinu frá því HVE varð til við sameiningu átta heilbrigðisstofnana árið 2010 en lætur nú af störfum. Sjö umsóknir bárust um starfið og var ákveðið að ráða Þórð Guðnason á Akranesi. Byrjar hann störf 13. júní næstkomandi.

Margar starfsstöðvar

Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands eru nú átta starfsstöðvar þar sem sjúkrabílar eru staðsettir og 55 starfsmenn sem standa vaktir og sinna akstri samtals 16 sjúkrabíla. Auk þess eru sex svokallaðar hjálparstöðvar á fámennari stöðum og sjötíu bakverðir til taks á þeim ef eitthvað kemur uppá. Yfirmaður sjúkraflutninga hjá HVE hefur umsjón með hjálparstöðvunum. Þær eru á Reykhólum, Flatey, Húsafelli, Reykholti, Hvanneyri og Laugargerðisskóla. Starfið er því býsna víðfeðmt landfræðilega og umfangsmikið hvað mannaforráð og tækjabúnað snertir. Gísli Björnsson hóf störf hjá Sjúkrahúsinu á Akranesi árið 1995 og gegndi í upphafi starfi deildarstjóra. Vann þá að flutningi sjúkrabílaþjónustunnar frá lögreglunni til sjúkrahússins á Akranesi. Árið 2010 þegar Heilbrigðisstofnun Vesturlands varð til var hann ráðinn sem yfirmaður sjúkraflutninga hjá stofnuninni og hefur gegnt því starfi síðan. Hann segir ánægjulega þróun hafa átt sér stað á síðasta ári þegar fjórir nýir og vel búnir Bens sjúkrabílar komu í flota HVE og leystu af hólmi bíla sem voru komnir „fram yfir síðasta söludag,“ svo ekki sé fastar kveðið að orði. Gísli segir að von sé á fjórum nýjum bílum á þessu ári og verði það mikill léttir að þá verður helmingur sjúkrabílaflotans búinn að fara í gegnum endurnýjun.

Björgunarmaður

Þórður Guðnason kveðst afar ánægður að taka við nýju starfi og fullur tilhlökkunar. Hann telur sig vera að taka við góðu búi hjá Gísla og þekkir auk þess vel til starfsumhverfisins. Þórður hefur undanfarin ár átt og rekið verktakafyritækið Íslandsgáma, ásamt Guðna Þórðarsyni föður sínum, en hyggst hætta þeim rekstri nú. Þórður hefur aflað sér víðtækrar reynslu sem björgunarmaður. Verið í sjúkraflutningum, virkur í björgunarsveit og slökkviliðsmaður frá 2010. „Ég byrjaði sem sjúkraflutningamaður hér hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og var ýmist í föstu- eða hlutastarfi. Þá starfaði ég m.a. í tvö ár við sjúkraflutninga í Osló. Ég hef aflað mér réttinda sem EMT-I sjúkraflutningamaður, en það stendur fyrir Advanced emergency medical technician Intermediate. Eftir björgun á dreng úr sprungu í Langjökli 2010, sem björgunarsveitarmaður, var mér boðið til Sviss árið eftir þar sem ég fékk að starfa í þyrlusveit við björgun á fólki. Þar eru þyrlur notaðar nær eingöngu sem sjúkraflutningatæki, afar hentugar til að komast í fjöllin. Loks hef ég ýmsa aðra reynslu og hef lokið námskeiðum sem snerta starf björgunarsveita, slökkviliða og bráðaliða. Allt er þetta reynsla sem nýtist vel í því starfi sem ég er nú að taka að mér,“ segir Þórður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir