Ljósm. AF

Fyrsti opinberi leikurinn á Hellissandsvelli

Lið Umf. Reynis Hellissands í knattspyrnu, sem leikur í fjórðu deildinni í sumar, lék á mánudagskvöldið í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins og fór leikurinn fram á Hellissandi. Andstæðingurinn var lið Aftureldingar sem leikur í Lengjudeildinni, sem er næstefsta deild Íslandsmótsins. Heimamenn áttu í fullu tré við Mosfellinga og staðan var markalaus í hálfleik. Á 58. mínútu komst Afturelding yfir með marki Valgeirs Árna Svanssonar og hann var aftur á ferðinni á 90. mínútu og lokastaðan því 0-2.

Leikurinn var merkilegur fyrir þær sakir að þetta var fyrsti leikur Reynis Hellissands í Meistaraflokki í Íslandsmóti frá upphafi og var þetta sömuleiðis vígsluleikur þeirra á hinum glæsilega heimavelli þeirra á Hellissandi og því mikið um dýrðir í bænum. Þjálfari liðsins og forsprakki er Sandarinn Kári Viðarsson sem hefur vakið mikla athygli fyrir stofnun og rekstur Frystiklefans í Rifi og ljóst að það verður meira en bara menning á Hellissandi í sumar.

Mikil og góð stemning var á vellinum fyrir leikinn en þetta var fyrsti opinberi heimaleikur Reynis frá því að völlurinn var vígður árið 1994. En sem viðbót við hefðbundinn fótboltaleik voru tekin upp atriði í kvikmyndina Heimaleikurinn. Karlakórinn Kári söng fyrir leikinn lagið Ég er kominn heim.

Fjölmargir áhorfendur mættu á leikinn og hvöttu sína menn áfram. Ekki var annað að sjá en að Reynismenn börðust til hinsta blóðdropa og með hinum sanna ungmennafélagsanda að vopni og höfðu gaman af.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bayeux og Borgarnes

Það var góð tilfinning að koma í Landnámssetur Íslands síðastliðinn fimmtudag og finna þar aftur fullt hús af menningarþyrstum leikhúsgestum.... Lesa meira