Séra Hildur Björk Hörpudóttir verðandi sóknarprestur í Reykholti.

Sr. Hildur Björk ráðin sóknarprestur í Reykholt

Kjörnefnd kaus í gær séra Hildi Björk Hörpudóttur í starf sóknarprests í Reykholts- og Hvanneyrarprestakalli og hefur sr. Agnes M Sigurðardóttir biskup Íslands staðfest ráðningu hennar. Auglýst var eftir sóknarpresti til þjónustu og miðað við að viðkomandi gæti hafið störf sem fyrst eða í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að ákvörðunum um ráðningu lægi fyrir. Starfi sóknarprests í Reykholti fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu, þ.á.m. vegna umsýslu jarðarinnar Reykholts. Prestssetur verður í Reykholti. Í Reykholtsprestakalli eru sex sóknir; Bæjarsókn, Fitjasókn, Hvanneyrarsókn, Lundarsókn, Reykholtssókn og Síðumúlasókn. 1. desember 2019 var heildarfjöldi íbúa í prestakallinu 988. Prestakallið var auglýst með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing er snertu m.a. Reykholtsprestakall og sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla í prófastsdæminu, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Hildur Björk er fædd í Reykjavík 1980. Hún starfar nú sem sviðsstjóri fræðslusviðs Biskupsstofu. Hún lauk mag. theol prófi frá Háskóla Íslands 2015 og MA-gráðu í praktískri guðfræði frá sama skóla árið 2017. Þá lauk hún námi árið 2019 frá Clifford College í „Familiy Ministry.“ Jafnframt er hún með kennsluréttindi og meistarapróf í mannauðsstjórnun. Hildur Björk er einnig með próf í sáttamiðlun, áfallafræðum, og hefur réttindi sem alþjóðlegur jógakennari.

„Sr. Hildur Björk á fimm börn. Hún hefur margháttaða starfsreynslu á sviði félags, kirkju- og mannúðarmála. Hún hefur meðal annars verið formaður Jafnréttisnefndar þjóðkirkjunnar, átt sæti í stjórn Félags prestvígðra kvenna, setið í stjórn Skálholtsútgáfunnar og verið aðalmaður í Vernd, félags um fangahjálp. Hildur Björk var vígð til þjónustu í Reykhólaprestakalli og var þar sóknarprestur frá 2016-2019,“ segir í tilkynningu frá Biskupsstofu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir