Verðlaunahafar frá vinstri: Björn Ingi, Elínborg, Helga Rún, Steindóra Ólöf og Laufey Rún. Ljósm. Rósa Björk Jónsdóttir.

Úrslit á Skeifudeginum á Hvanneyri

Skeifudagurinn á Hvanneyri var haldinn hátíðlegur fyrsta sumardag, en hann hefur verið fastur liður í starfi nemenda skólans allt frá 1957. Vegna samkomutakmarkana máttu gestir ekki mæta að þessu sinni að Mið-Fossum og var dagskránni streymt á vefnum. Skeifudagurinn er sannkölluð uppskeruhátíð nemenda í reiðmennskuáföngum við skólann þegar þeir sýna afrakstur námsins við tamningu og þjálfun tveggja hrossa. Morgunblaðsskeifan er veitt nemenda sem hlýtur náð bestum samanlögðum árangri í frumtamningaprófi og í reiðmennskuhluta knapamerkis III. Gunnarsbikarinn hlýtur sá nemenda sem fær hæstu einkunn í fjórgangskeppni. Ásetuverðlaun Félags tamningamanna eru afhent sem og Framfaraverðlaun Reynis.

Dagurinn hófst með opnunaratriði þar sem nemendur ásamt Randi Holaker kennara sínum riðu fánareið. Þá flutti Eyjólfur Kristinn Örnólfsson brautarstjóri búfræðibrautar ávarp. Nemendur sýndu þvínæst tryppin sem þeir höfðu tamið í vetur. Loks var keppt um Gunnarsbikarinn. Að lokinni keppni flutti Steindóra Ólöf Haraldsóttir formaður hestamannafélagsins Grana ávarp og verðlaun dagsins voru afhent. Dagskránni lauk svo með ávarpi Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur rektors. Þulur var Þráinn Ingólfsson.

Morgunblaðsskeifuna hlaut Laufey Rún Sveinsdóttir frá Sauðárkróki með einkunnina 9,1. Í öðru sæti varð Steindóra Ólöf Haraldsdóttir með 8,9, Helga Rún Jóhannsdóttir varð þriðja með 8,5, Elínborg Árnadóttir fjórða með 8,4 og Björn Ingi Ólafsson fimmti með einkunnina 8,3.

Gunnarsbikarinn hlaut Helga Rún Jóhannsdóttir. Eiðfaxabikarinn er veittur þeim nemenda sem hlýtur bestu einkunn í bóklegum áfanga og hlaut hann í ár Elínborg Árnadóttir. Ásetuverðlaunin hlaut Steindóra Ólöf Haraldsdóttir. Framfarabikar Reynis hlaut Björn Ingi Ólafsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir