Brynhildur stolt með kiðin sín þrjú. Ljósm. hss

Þrjú kið hjá Brynhildi í Fagradal

Geitin Brynhildur á bænum Ytri-Fagradal á Skarðsströnd bar þremur kiðlingum í síðustu viku; tveimur höfrum og einni huðnu. Heilsast þeim öllum vel eins og sjá má á myndinni. Brynhildi tókst hjálparlaust að bera tveimur fyrri kiðunum en það síðasta og minnsta kom afturábak og þáði hún hjálp húsfreyju við að koma því frá sér. Hjónin Guðmundur Gíslason og Halla Sigríður Steinólfsdóttir búa í Ytri-Fagradal og rækta einkum fé en hafa þó nítján geitur sér til ánægju, þar af sextán huðnur sem bera í vor. Aðspurð segir Halla að það sé afar sjaldgæft að geitur beri þremur kiðum, oftast beri þær einu en stundum tveimur. Fósturtalið var á Ytri-Fagradal í síðustu viku, bæði í gemlingunum og svo í geitunum sem óbornar voru. Það var Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi, varaþingmaður og fósturteljari frá Ljótarstöðum í Skaftárhreppi sem framkvæmdi talninguna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir