Stokkið í sjóinn fyrir Svenna

Árgangur 1971 á Akranesi hefur oft komið við sögu í fjáröflunum innanbæjar og látið gott af sér leiða. Nú hefur árgangurinn ákveðið að standa fyrir áheitastökki í Akraneshöfn laugardaginn 1. maí næstkomandi. Safnað verður fyrir einn jafnaldra þeirra, Sveinbjörn Reyr, sem slasaðist alvarlega á síðasta ári þegar hann var við akstur í motocrossbrautinni á Akranesi. Safnað verður fyrir sérsmíðuðu, handknúnu reiðhjóli handa Svenna sem kostar um tvær milljónir króna komið til landsins.

Ætlunin er að fá að minnsta kosti 71 stökkvara til að stökkva í sjóinn af smábátabryggjunni. Því er jafnframt lofað að stokkið verði af lítilli hæð en ekki hægt að lofa að það verði ekki kalt þegar niður er komið. „Við hvetjum alla stökkfæra til að vera með og safna áheitum,” segir í auglýsingu frá Club71. Því er bætt við að þeir sem stökkva megi vera í sundfötum, venjulegum fötum, blautgalla, þurrgalla eða bara hverju sem er. Skorað er á einstaklinga, hópa, félagasamtök og fyrirtæki að sýna samtakamátt og heita á stökkvarana. Ekki verður tekið við tímapöntunum, heldur mætt á tímabilinu frá klukkan 10 til 15 laugardaginn 1. maí og leiðbeiningum fylgt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir