Samþykktu breytingar á aðalskipulagi til að reisa megi vindorkuver í Dölum

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar fimmtudaginn 15. apríl síðastliðinn var samþykkt að breyta aðalskipulagi við Sólheima og Hróðnýjarstaði í Laxárdal svo þar megi reisa vindorkuver. Í gildandi aðalskipulagi eru jarðirnar skilgreindar fyrir landbúnað en með breytingunum verða fyrirhuguð vindorkuver skilgreind sem iðnaðarsvæði. Gert er ráð fyrir að hægt verið að reisa allt að 40 vindmyllur með allt að 130 MW raforkuframleiðslu við Hróðnýjarstaði og 30 vindmyllur með allt að 150 MW raforkuframleiðslu við Sólheima. Hæð vindmyllanna verður allt að 150 m í miðju hverfilsins en geta risið í allt að 200 m hæð í hæstu stöðu spaða. Einnig var samþykkt breyting á aðalskipulagi á fundi sveitarstjórnar á Reykhólum fimmtudaginn 15. apríl vegna fyrirhugaðs vindorkuvers í Garpsdal. Ekki er nánar fjallað um þá breytingu í fundargerð sveitarfélagsins.

Stefnumörkun fyrir sveitarfélagið

„Þetta er fyrsta skrefið í væntanlega áralöngu ferli sem nú þegar hefur tekið fjögur ár,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar, í samtali við Skessuhorn. Breytingarnar sem samþykktar voru á fundi sveitarstjórnar bíða nú staðfestingar Skipulagsstofnunar. Eyjólfur segir að enn séu mörg skref í átt að því að vindorkugarðar verði reistir í Laxárdal og nefnir að enn eigi eftir að meta umhverfisáhrif og deiliskipuleggja svæðið. „Svo eru skiptar skoðanir á því hvort þessar framkvæmdir ættu að falla undir rammaáætlun eða ekki. En það er ekki hlutverk sveitarfélagsins að segja til um það,“ segir Eyjólfur. „Þessi ákvörðun er bara ákveðin stefnumörkun fyrir sveitarfélagið. Ef af þessari uppbyggingu verður mun það auka tekjur í formi fasteignagjalda og búa til störf allavega á uppbyggingartíma,“ segir hann og bætir við að í kjölfar uppbyggingar á vindorkugörðum gætu orðið til afleidd störf í sveitarfélaginu. „Þetta er í raun hluti af uppbyggingu innviða. Mögulega sjá orkufrek fyrirtæki hag í að byggja upp hér í nálægð við orkuna. En þá þarf orkan að koma fyrst,“ segir Eyjólfur.

„Ég vil þó ítreka að ég er samþykkur þessari breytingu á aðalskipulagi en áskil mér rétt að hafa aðra skoðun á seinni stigum málsins ef eitthvað kemur fram sem mælir gegn þessari uppbyggingu. Þetta er bara eitt skref af mörgum,“ bætir hann við. Eyjólfur segist hafa orðið var við umræðu sem leggi að jöfnu þessa breytingu á aðalskipulagi og framkvæmdaleyfi. „Það er langur vegur frá því og margt sem á eftir að skoða áður en framkvæmdir geta hafist. Þetta er viðamikil vinna og enn margt sem á eftir að koma í ljós.

Líkar þetta

Fleiri fréttir