Frá skátamessu í Hjarðarholtskirkju á Jörvagleði 2019. Ljósm. úr safni/sm.

Rafræn Jörvagleði fer fram á morgun

Jörvagleði, menningarhátíð Dalamanna, verður haldin á morgun laugardaginn 24. apríl. Hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár síðan 1977 en vegna heimsfaraldurs verður hátíðin með öðru sniði í ár. Dagskráin verður aðeins á laugardeginum og mun taka mið af gildandi sóttvarnareglum.

Hressir hlaupagarpar hefja hátíðardagskrána með sumarhlaupi UDN klukkan ellefu í fyrramálið. Klukkan 14:00 verður dagskrárliðurinn „Afbragð annarra kvenna“ haldinn á Teams. Þá mun rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir fjalla um Auði djúpúðgu. Niðurstaða úr kjöri Dalamanns ársins verður kynnt í beinni útsendingu á Facebook síðu Dalabyggðar klukkan 16:00. Þá verður handknattleiksmaðurinn Björgvin Páll Gústavsson með spjall á Teams um íþróttir, markmið og leiðina að góðum árangri. Hægt verður að spyrja hann spurninga og spjalla við Björgvin Pál en hægt er að nálgast slóð á erindið á Facebook viðburðinum Jörvagleði 2021. Fjölskyldudagskrá verður um kvöldið en kl. 20:00 hefst spurningakeppni fjölskyldunnar þar sem Lionsklúbbur Búðardals mun standa fyrir skemmtilegri keppni. Dagskránni verður svo lokað með flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Óskar kl. 22:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir