Óskar Þór á Tröðum segist núna taka hvert langlínusamtalið á fætur öðru og muni halda því áfram næstu fimm vikurnar, áður en lokað verður á hann. Hann bókstaflega hangi í símanum!

Loka gömlu símalínunum þrátt fyrir stopult fjarskiptasamband

Síminn hefur með bréfi til notenda talsímaþjónustu í dreifbýli tilkynnt um fyrirhugaða lokun á talsímasambandi yfir koparlínur. Í bréfi til ábúenda á jörð á Mýrum, sem Skessuhorn hefur undir höndum, kemur fram að eftir um mánuð muni Síminn loka gamla heimasímakerfinu sem styðst við koparlínur og hefur þjónað landsmönnum í yfir 35 ár. Í einhverjum tilfellum mun þessi breyting ekki koma að sök, þar sem víða er búið að leggja ljósleiðara, en það á þó alls ekki við á öllum stöðum t.d. í Borgarbyggð þar sem ekki er búið að leggja ljósleiðara í allar sveitir dreifbýlisins. Þar sem þannig háttar til er sumsstaðar hægt að treysta á 4G samband, en því fer fjarri að það eigi við á öllum stöðum.

Óskar Þór Óskarsson á Tröðum á Mýrum er einn þeirra sem fengið hafa fyrrnefnt bréf frá Símanum. Hann segir í samtali við Skessuhorn að þessi niðurlagning á þjónustu Símans sé engan veginn tímabær. „Þetta er afar bagalegt þar sem fastlínusambandið hér í sveit um jarðsíma er eina sambandið sem raunverulega virkar. Hér er farsímasambandið mjög lélegt og ekki verið lagður ljósleiðari,“ segir Óskar. Svipaða sögu er að segja víðar á svæðinu, til að mynda í Hítardal þar sem símafyrirtækjunum hafa verið afar mislagðar hendur að koma á fjarskiptasambandi; ekkert farsímasamband og stopult netsamband. „Það er ekki verið að mylja undir okkur sveitavarginn,“ sagði Óskar sem kveðst ósáttur. Hann segist ætla að setja sig í samband við forsvarsmenn Símans og leita nánari skýringa á þessari ótímabæru niðurlagningu lífsnauðsynlegrar þjónustu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir