Skjáskot af streymisfundi sem fram fór 19. apríl síðastliðinn.

Góðar fréttir af Snæfellsnesi

Eitt af því sem einkennt hefur Snæfellsnes síðustu ár er mikil og góð samvinna þvert á sveitarfélög. Má segja að samstarf og samvinna í hinum ýmsu birtingarmyndum sé orðin ein af sérstöðum Snæfellsness. Samstarf á sér langa sögu en sífellt er verið að auka þar í. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var til að mynda stofnaður árið 2014 af sveitarfélögunum fimm sem og félögum úr atvinnulífi og stéttarfélagi. Svæðisgarðurinn er sá eini sinnar tegundar á landinu enn sem komið er og því má segja að Snæfellingar séu frumkvöðlar í samstarfi sveitarfélaga. Það er á vegum Svæðisgarðsins sem tengiliðir allra sveitarfélaganna, þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, byggðasafnsins og Umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness hittast alla mánudagsmorgna á snörpum fjarfundi og segja góðar fréttir af Snæfellsnesi. Þannig skapast einstakt rými fyrir samvinnu og samtal sem og að tryggja upplýsingaflæði milli sveitarfélaga og stofnana.

Aðspurð segir Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins, að svona samtal skili miklu. „Oft sér fólk ekki fréttapunktinn í því sem er að gerast fyrir framan nefið á því sjálfu en í samtalinu koma oftast fram fréttir sem við viljum segja og svo hjálpumst við að við að finna þeim rétta farveginn. Þó að dagskráin sé stutt er farinn fréttahringur hjá þátttakendum. Ef eitthvað sérstakt samvinnuverkefni er á döfinni er kafað nánar ofan í það og svo er örlítill gluggi fyrir önnur mál. Rauði þráðurinn er að þessi fundur er fyrir tilbúin verkefni sem við viljum segja frá, um góðar fréttir af Snæfellsnesi,“ segir Ragnhildur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir