Heiðlóan er fugl ársins 2021

Það er heiðlóan sem er sigurvegari kosningar um titilinn Fugl ársins 2021, en það á vel við að úrslitin séu kynnt á sumardaginn fyrsta. Heiðlóan flaug beint á toppinn í atkvæðagreiðslunni og sigraði með glæsibrag þar sem hún fékk bæði flest atkvæði sem fyrsta val kjósenda og var einnig með flest atkvæði samanlagt sem 1.-5. val. Himbriminn veitti henni harða keppni. Alls bárust 2.054 atkvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti fimm fugla og raða þeim í sæti 1-5.

Það er Fuglavernd sem stendur að baki kosningu á Fugli ársins en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður héðan í frá enda voru viðtökurnar framar vonum. Keppnin er haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar. Í hópi fugla sem voru keppendur um titilinn Fugl ársins og eru í miklum vanda á Íslandi eru lundi, kría og sendlingur.

Staða heiðlóunnar á Íslandi er þó góð og telst stofninn vera hátt í 400 þúsund pör. Hún er algengur og útbreiddur varpfugl og Ísland er mjög mikilvægt búsvæði fyrir heiðlóuna því að um þriðjungur allra heiðlóa í heiminum verpur hér á landi. Heiðlóan er farfugl og flýgur á haustin til Vestur-Evrópu, aðallega Írlands, en einnig í Frakklands, Spánar, Portúgal og Marokkó, þar sem hún dvelur við strendur og árósa.

Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar sem einnig sigraði BirdEurovisionkeppnina árið 2002 með fögrum söng sínum. Heiðlóan er gjarnan kölluð vorboðinn ljúfi og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna sem tákn vorkomunnar og er fréttum af fyrstu komu heiðlóunnar á hverju vori ákaft fagnað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir