Skeifudeginum streymt að þessu sinni

Skeifudagur nemenda LbhÍ verður haldinn hátíðlegur í ár á sumardaginn fyrsta, en vegna samkomutakmarkanna þá verður honum streymt á netinu. Skeifudagurinn á sér langa sögu en Morgunblaðsskeifan var fyrst veitt við skólaslit Bændaskólans á Hvanneyri 4. maí 1957. Vildi Morgunblaðið með þessu framtaki sýna hug sinn til þessarar fornu og fögru íþróttar, hestamennskunnar. „Skeifudagurinn er sannkölluð uppskeruhátíð nemenda í reiðmennskuáföngum skólans og sýna nemendur afrakstur vetrarins á tamningu og þjálfun tveggja hrossa. Þá eru veitt þar verðlaun auk Morgunblaðsskeifunnar, Gunnarsbikarinn, sem fer til þess nemenda sem fær hæstu einkunn í fjórgangskeppni, ásetuverðlaun Félags tamningamanna, Framfaraverðlaun Reynis. Morgunblaðskeifan sem fer til þess nemenda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum.

Streymi frá viðburðinum hefst kl 16 á sumardaginn fyrsta 22. apríl. Viðburðinu verður streymt í gegnum Facebook síðu Landbúnaðarháskóla Íslands. Dagskráin hefst kl. 16 með opnunaratriði og ávarpi brautarstjóra búfræðibrautar Eyjólfs Kristins Örnólfssonar. Þá hefst kynning á tamningatryppum nemenda en í kjölfarið er kynning á reiðhrossum þeirra. Úrslit eru riðin um Gunnarsbikarinn að kynningu lokinni. Eftir verðlaunaafhendingu í Gunnarsbikar er ávarp formanns Grana, hestamannfélags nemenda, Steindóru Ólöfu Haraldsdóttur og þá er komið að veitingu viðurkenningarskjala, annara verðlauna og Morgunblaðsskeifunnar að lokum. Dagskránni lýkur svo með útdrætti í happadrætti Grana.

Upphaf Skeifudagsins

Upphaf Skeifudagsins má rekja til stofnunar Hestamannfélagsins Grana á Hvanneyri árið 1954 en það var Gunnar Bjarnason, sem þá var kennari við skólann, sem stofnaði félagið ásamt nemendum við Bændaskólann á Hvanneyri, sem áhuga höfðu á hestamennsku. Gunnar var upphafsmaður kennslu í reiðmennsku og tamningum við skólann árið 1951.

Í dag hefur Grani aðgang að frábærri aðstöðu að Mið-Fossum í Andakíl auk þess sem að allir nemendur Landbúnaðarháskólans hverju sinni eru fullgildir meðlimir hestamannafélagsins Grana. Félagið stendur reglulega fyrir hinum ýmsu viðburðum yfir skólaárið jafnt fyrir hestaunnendur sem og aðra. Sem dæmi má nefna þríþraut Grana, árlega óvissuferð og hefðbundin hestaíþróttamót auk Skeifudagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir