Nýir eigendur og rekstraraðilar í Hreðavatnsskála; Brynja og Jóhann; Hera og Adam Logi með börnin sín. Ljósm. mm

Hafa keypt Hreðavatnsskála og hefja rekstur í sumar

Síðastliðinn föstudag var gengið frá sölu á hinum rótgróna Hreðavatnsskála í Borgarfirði.  Lítil starfsemi hefur verið í húsunum síðustu árin en nú verður breyting þar á. Kaupendur eru ungt par sem býr og starfar í sveitinni, þau Adam Logi og Hera Jóhannsdóttir. Hreðavatnsskáli er á fjögurra hektara eignarlandi en auk veitingaskálans er gistihús á lóðinni, tankar fyrir eldsneyti fylgja fasteigninni og í brekkunni ofan við skálann er íbúðarhús og tvö sumarhús. Aðspurð segja þau Adam og Hera að kaupverðið sé 86 milljónir króna og sé það ásættanlegt verð í ljósi þess að framundan eru töluvert miklar lagfæringar á húsum með það fyrir augum að þar verði hægt að opna veitingastað og gistiþjónustu í sumar. Unga fólkið mun sjálft ekki reka skálann en það munu hins vegar foreldrar Heru gera, þau Brynja Brynjarsdóttir og Jóhann Harðarson, ferðaþjónustubændur á Hraunsnefi sveitahóteli.

Samreka tvo staði í Norðurárdal

Blaðamaður Skessuhorns hitti nýja kaupendur og verðandi rekstraraðila í Hreðavatnsskála síðastliðinn föstudag. Fyrr um daginn hafði verið gengið frá kaupunum og voru nýir eigendur fullir tilhlökkunar að skoða húsin sem slíkir í fyrsta skipti. Nú ætlar fjölskyldan frá Hraunsnefi að spýta í lófana því framundan eru miklar lagfæringar á húsnæðinu til að hægt verði að opna eftir rétta tvo mánuði. „Við stefnum ótrauð á að opna hér veitingasölu, nýlenduvöruverslun og hostel 16. júní í sumar. Þann dag verða rétt 16 ár frá því við tókum á móti fyrstu næturgestunum á Hraunsnefi sveitahóteli,“ segir Brynja. Hún segir að fyrirkomulagið verði þannig að þótt unga fólkið eigi húseignir og lóðina að þá muni Hraunsnef sveitahótel taka allan rekstur af þeim á leigu. „Við stefnum á að samreka þessa tvo staði; Hraunsnef og Hreðavatnsskála en hvor um sig haldi þó sínum sérkennum. Hér í Hreðavatnsskála er hugmyndin að bjóða upp á léttar veitingar og að hér geti ferðafólk átt stutt stopp í mat og drykk. Maturinn sem hér verður seldur verður forunninn í eldhúsinu á Hraunsnefi og við munum leggja áherslu á að nýta allt það hráefni sem við framleiðum sjálf, eins og við höfum gert á veitingastaðnum okkar. Með því að maturinn verður forunninn á Hraunsnefi erum við að draga úr starfsmannaþörf hér í skálanum. Veitingarnar hér verða í anda Food Truck veitingastaða, ódýrari matur og öðruvísi en það sem við erum með á matseðlinum okkar á Hraunsnefi.“

Hostel og hótel

Brynja segir að þau ætli einnig að opna litla nýlenduvöruverslun þar sem fólk á ferð um þjóðveginn en ekki síður þeir sem dvelja í sumarhúsum í nágrenninu og á Bifröst geti keypt það helsta. „Varðandi gistiþjónustuna munum við í gegnum Hraunsnef sveitahótel bjóða upp á Hostel gistingu hér í Hreðavatnsskála. Þannig samnýtum við bókunarkerfi og vonumst til að í því felist samlegðaráhrif. Við bjóðum þannig upp á tvenns konar gistingu, á hóteli og svo ódýrari gistingu hér,“ segja þau Brynja og Jóhann. Þau segja reksturinn á Hraunsnefi hafa verið að ganga ágætlega, auðvitað ef undan er skilinn sá tími sem allt var lokað vegna Covid-19. Nú sé hins vegar ástandið að batna, vel er bókað á hótelið hjá þeim um helgar og mikið að gera í veitingasölu og frekar bjart útlit með sumarið.

Nánar er rætt við nýja eigendur og rekstraraðila Hreðavatnsskála í Skessuhorni sem kom út í dag.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir