Söng Línu fyrir alla sjómenn

Lítil stúlka sat í stýrishúsinu í bátnum hjá föður sínum síðastliðinn laugardag. Fékk hún að hafa síma föður síns á meðan hann gerði bátinn kláran fyrir sumarið. Stúlkan fór að syngja Línu Langsokk, af mikilli innlifun. Allt í einu gall við valdsmannleg rödd í talstöðinni: „Þetta er Landhelgisgæslan! Það er harðbannað að syngja Línu Langsokk í talstöðina.“ Pabbinn var ekki lengi að átta sig, stökk inn og slökkti á talstöðinni sem hafði verið stillt á neyðarrás skipa og báta. Sú stutta var mjög hissa þegar pabbinn sagði henni að núna hefðu allir sjómenn á Íslandi heyrt hana syngja Línu Langsokk.

Þessa frásögn sendi Jónína Björg Magnúsdóttir Skessuhorni í gær, en hún þekkir sjómanninn, faðir hinnar söngelsku stúlku á Akureyri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir