Meðfylgjandi mynd var tekin við undirskrift samningsins. Þarna eru Pálmi Vilhjálmsson forstjóri Mjólkursamsölunar og Kristján Þór Harðarson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Mjólkursamsalan er nýr styrktaraðili Landsbjargar

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur átt í góðu samstarfi við Mjólkursamsöluna undanfarin ár og notið stuðnings í formi vöruúttekta þegar sjálfboðaliðar félagsins sinna tímafrekum útköllum og fjáröflunum. Nú hafa félögin stigið skrefinu lengra og undirritað samstarfssamning, þar með Mjólkursamsalan bætist við öflugan hóp aðalstyrktaraðila og styður með myndarlegum hætti starf mörg þúsund sjálfboðaliða.

„Mikið hefur mætt á sjálfboðaliðum okkar frá því jörð fór að skjálfa af krafti á Reykjanesi og ekki síður eftir að eldgos í Geldingardölum hófst. Undanfarnar fjórar vikur hafa um þúsund sjálfboðaliðar frá björgunarsveitum, af nánast öllu landinu, lagt sitt af mörkum til að tryggja öryggi ferðafólks við gosstöðvarnar. Margir hópar sjálfboðaliða hafa staðið vaktina og oftar en ekki hafa vaktir verið mannaðar allan sólarhringinn. Við þessar aðstæður hefur það sýnt sig enn og aftur að gott samstarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar við fyrirtæki eins og Mjólkursamsöluna er nauðsynlegt til að tryggja að félagið geti sinnt sínu hlutverki,“ segir í tilkynningu frá Kristjáni Þór Harðarsyni framkvæmdastjóra Landsbjargar. „Sá stuðningur sem við finnum fyrir í samfélaginu er okkur ómetanlegur. Við gætum ekki leyst verkefni okkar án stuðnings sem við fáum frá almenningi og fyrirtækjunum í landinu. Þess vegna er framtak Mjólkursamsölunnar til fyrirmyndar og okkur hlakkar til að eiga áfram gott samstarf við MS í framtíðinni“ sagði Kristján.

Líkar þetta

Fleiri fréttir