Bakslag í baráttuna við veiruna

Þríeykið; Víðir Reynisson, Alma Möller og Þórólfur Guðnason, héldu upplýsingafund í dag þar sem fjallað var um það bakslag sem varð í síðustu viku og um helgina í útbreiðslu Covid-19. Smitum hefur fjölgað mikið af svokölluðu breska afbrigði veirunnar og hlutfallslega margir hafa verið utan sóttkvíar. 27 ný smit voru greind í dag og höfðu 25 af þeim verið í sóttkví. Alma Möller landlæknir segir atburði helgarinnar vonbrigði. „Breska afbrigðið er til staðar í samfélaginu. Nú er mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu og fara í sýnatöku við minnstu einkenni,“ sagði hún og nefndi einkenni á borð við hósta, hita, andþyngsli, kvef, hálsbólgu, beinverki, höfuðverk, slappleika, ógleði og skert lyktar- og bragðskyn. „Svo haldi fólk sig heima þar til það fær niðurstöðu úr sýnatöku. Þetta sé mjög mikilvægt,“ segir Alma Möller.

Hópsmit undanfarinna daga virðast eiga sér aðdraganda, en eru að hluta að minnsta kosti rakin til einstaklings sem ekki hélt sóttkví. Hópsmit má rekja til leikskólans Jörva í Reykjavík og fiskvinnslufyrirtækis en mögulega með dreifingu í gegnum veitingastað. Viðamikil smitrakning hefur farið fram síðustu daga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að ekki væri ljóst á þessari stundu hvort gripið verður til hertra aðgerða í ljósi þessara tíðinda, en sýkingin hafi komið upp áður en slakað var á sóttvarnareglum í seinustu viku. Ef smitum fjölgar enn frekar sagðist hann muna leggja til hertar aðgerðir að nýju, en vildi þó ekki slá því föstu á þessari stundu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir